133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

aðgangur að háskólum.

146. mál
[18:00]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra:

Hve mörgum sem sóttu um skólavist í fyrrahaust, árið 2006, var vísað frá Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, Háskólanum á Hólum og Kennaraháskóla Íslands, sundurliðað eftir deildum og skorum? Hve margir fengu ekki inngöngu í einkareknu háskólana, Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Bifröst? Liggur fyrir hve margir umsækjendur fengu hvergi vist í háskóla?

Þetta eru mjög mikilvægar upplýsingar sem ég bið um, virðulegi forseti, og nauðsynlegar til að átta sig á stöðu háskólamenntunarinnar hér á landi. Úti um allan hinn vestræna heim hefur á síðustu árum og áratugum streymt í háskólana fólk á öllum aldri, fólk sem hafði ekki tækifæri til lengri skólagöngu þegar það var á hefðbundnum skólaaldri eða unglingsárum og snýr aftur í skólana, fær sig metið inn eða hefur klárað stúdentspróf o.s.frv. Þá fer að sjálfsögðu hærra hlutfall af hverjum árgangi í háskóla en áður. Eins hefur háskólunum hér fjölgað töluvert þó að til standi að sameina aftur nú.

Menntunarstig á Íslandi er töluvert miklu lægra en annars staðar á Norðurlöndum og því mikilvægt að efla háskólamenntun eins og kostur er, bæði með staðbundnu námi og að sjálfsögðu fjarnámi eins og hefur rutt sér mjög til rúms víða um landið gegnum fræðslunetin og fullorðinsfræðsluna sem stofnað var til víða um land. Það þróast annars vegar sem fullorðinsfræðsla og endurmenntun og hins vegar sem fjarnámsmiðstöðvar háskólanáms og er óendanlega mikilvægt fyrir byggðirnar, hefur opnað hundruðum ef ekki þúsundum Íslendinga á síðustu árum tækifæri til að mennta sig frekar í heimabyggð sinni án þess að taka sig upp og flytja til Reykjavíkur eða annað og gefur þannig ný tækifæri til menntunar.

Vegna fjárhagserfiðleika og fjársveltis Háskóla Íslands hætti háskólinn fyrir nokkrum missirum að veita undanþágur þeim sem ekki voru með stúdentspróf við hefðbundna inngöngu í skólann. Var þetta notað sem nokkurs konar fjöldatakmörkun þar sem skólinn barðist að mörgu leyti í bökkum. Það er að mínu mati afleit þróun þar sem við eigum að sjálfsögðu að raunfærnismeta fólk inn þótt það hafi ekki hefðbundið stúdentspróf. Við þurfum samræmt yfirlit yfir hve margir á hverju ári fá ekki vistun í neinum skóla því að það hefur verið aðall Háskóla Íslands í gegnum tíðina að taka við öllum sem hafa tilskilin réttindi.