133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

aðgangur að háskólum.

146. mál
[18:03]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég get tekið undir með hv. fyrirspyrjanda, það er mikilvægt að við höfum samræmt yfirlit og við höfum einmitt á undanförnum árum lagt okkur fram um það í menntamálaráðuneytinu að fá sem besta yfirsýn yfir aðsókn að skólakerfinu. Við höfum núna samræmt kerfið í framhaldsskólunum og það hefur gefið góða raun, sérstaklega varðandi stýringuna á því hvernig hægt er að haga innrituninni og það sama erum við að reyna að gera núna varðandi háskólastigið.

Varðandi fyrstu spurninguna, um hve mörgum sem sóttu um skólavist í haust var vísað frá þeim háskólum sem hv. þingmaður taldi upp, sundurliðað eftir deildum og skorum, er rétt að taka fram að í fyrravor var tekin sú ákvörðun að safna á markvissan hátt upplýsingum um ásókn í háskólanám á Íslandi eins og ég gat um áðan. Var byggt á þeirri vinnu sem nú þegar hefur verið unnin í samráði við háskólana í menntamálaráðuneytinu og kemur fram í skýrslunum „Rafrænn flutningur gagna milli kerfa í menntageiranum. Aðferðir, notkun IMS Enterprise staðalsins og samskiptareglur“ og „Nemendaskráning og staðlað námsstjórnarkerfi í háskólanum“. Var ljóst að háskólar á Íslandi væru þá í stakk búnir til að skila upplýsingum um umsóknir nema til náms á rafrænu formi til ráðuneytisins. Voru háskólarnir beðnir um að senda inn upplýsingar um umsóknir fyrir skólaárið 2006–2007 og var þeim upplýsingum safnað í gagnagrunn sem mun síðan auðvelda mjög yfirsýn yfir aðsókn um háskólanám. Við úrvinnslu gagnanna kom ýmislegt í ljós, svo sem misræmi í því hvernig nemendur skrá inn upplýsingar á rafrænu eyðublöðin og einnig hvaða upplýsingum er safnað um hvern nemanda. Niðurstaða þessa verkefnis verður síðan gefin út sem skýrsla á næstunni.

Markmið mitt með þessu verkefni var einkum að fá heildaryfirsýn, eins og ég gat um áðan, yfir fjölda umsókna þannig að greina megi raunverulega eftirspurn eftir háskólanámi eftir skólum, deildum og námsgreinum. Ég hef talið mjög mikilvægt að ráðuneytið hafi slíkar upplýsingar tiltækar, m.a. til að sjá hvernig háskólastigið í heild kemur raunverulega til móts við þarfir nemenda og óskir þeirra um leið líka gagnvart atvinnulífinu.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns vil ég geta þess að Háskóli Íslands vísaði frá sex umsóknum og það er vert að geta þess að umsóknir og einstaklingar eru ekki endilega það sama. Eins og ég segi á eftir geta verið margar umsóknir á bak við einn einstakling. Tveimur umsækjendum var vísað frá í hugvísindadeild, einum í lagadeild, einum í lyfjafræði, einum í læknisfræði og einum í verkfræði þar sem umsækjendur uppfylltu ekki kröfur settar fram í HÍ varðandi umsækjendurna. Háskólinn á Akureyri vísaði frá 134 þar sem umsækjendur uppfylltu ekki inntökuskilyrði eða umsóknir voru ógildar vegna formgalla. Skiptust frávísanirnar á eftirfarandi hátt: Í félagsvísinda- og lagadeild 26, í heilbrigðisdeild var níu vísað frá, í kennaradeild 70 umsóknum og í viðskipta- og raunvísindadeild 29. Í Kennaraháskólanum var 563 vísað frá vegna þess að deildir voru fullsetnar. Var þá valið eftir styrk umsókna samkvæmt umsóknarreglum Kennaraháskólans.

Upplýsingar um aðsókn að Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og Háskólanum á Hólum þarf að sækja sérstaklega til landbúnaðarráðuneytisins því að enn sem komið er heyra ekki þessir háskólar undir menntamálaráðuneytið.

Varðandi inntöku í einkareknu háskólana er það að segja að við Háskólann í Reykjavík voru það 383 sem ekki var boðin skólavist. Ástæður þess að einstaklingum var ekki boðin skólavist voru samkvæmt svörum frá Háskólanum í Reykjavík þær að deildir væru fullsetnar í fyrsta lagi og ekki heimild fyrir fleiri nemendagildum og þá valið inn eftir því hverjir uppfylltu inntökuskilyrðin best, í öðru lagi uppfylltu umsækjendur ekki inntökuskilyrði eins og stúdentspróf eða önnur skilyrði sem eru sett fram af hálfu skólans og í þriðja lagi skiluðu umsækjendur einfaldlega ekki fylgigögnum eða gengu ekki frá umsóknum á fullnægjandi átt. Við Bifröst var 275 umsækjendum ekki boðin skólavist af sömu ástæðum og komu fram hjá Háskólanum í Reykjavík.

Varðandi þriðju spurninguna er hægt að segja að með því að bera saman upplýsingar um umsækjendur í háskólanámi í nefndum skólum og þær upplýsingar sem háskólarnir hafa látið ráðuneytinu í té kemur í ljós að af þeim 7.025 umsóknum sem liggja fyrir hafa 2.002 ekki fengið inni í neinum háskólanna. Enn og aftur ítreka ég að fjöldi umsókna er ekki sá sami og fjöldi umsækjenda. Við yfirferð gagnanna frá skólunum kemur í ljós misbrestur í þeim gögnum sem skólarnir fengu í hendur frá nemendum og einnig misræmi á milli skóla hvað varðar úrvinnslu og skilgreiningu á því hvað er umsókn. Ég tel eitt af verkefnum okkar í ráðuneytinu vera að reyna að samræma þessar upplýsingar.

Sumir skólar vísuðu frá umsóknum sem ekki voru fullunnar, aðrir vísuðu frá einstaklingum sem skiluðu ekki inn gögnum o.s.frv. Ef gögnin frá skólunum eru skoðuð nánar sést að hópur nemenda skilaði inn fleiri en einni umsókn. Samtals skilaði t.d. 781 umsækjandi inn 1.733 umsóknum og nokkur dæmi eru um einstaklinga sem skiluðu fleiri umsóknum, allt upp í sjö í ólíkar deildir innan skóla.

Við nánari athugun á þessum 2.002 umsóknum kemur í ljós að í 1.751 umsókn var sótt um nám á háskólastigi sem þýðir að 251 umsókn var skilað inn um nám sem ekki telst á háskólastigi og fékk því ekki inni. Þar af voru 439 ekki með stúdentspróf samkvæmt gögnum frá háskólanum en 1.312 voru það.

Ég vona, frú forseti, að hægt verði (Forseti hringir.) að vinna frekar úr þessum upplýsingum til að móta enn betur stefnuna (Forseti hringir.) um eftirspurn og framboð á námi á háskólastigi.