133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

nám langveikra ungmenna o.fl.

334. mál
[18:23]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég tel ástæðu til að fara vel yfir þessi mál. Ég velti því líka fyrir mér, í ljósi orða hv. þingmanns, hvort efla megi enn frekar náms- og starfsráðgjöfina á grunnskólastiginu sem menn hafa verið að benda á, til að tengja framhaldsskólann betur við grunnskólann og byggja þær brýr sem á þarf að halda. Þetta á að sjálfsögðu líka að gilda um þau ungmenni sem lenda í veikindum.

Ég tel sjálfsagt og eðlilegt að fara yfir þetta. Ég mun hugsanlega kalla eftir upplýsingum frá framhaldsskólum um hvernig þessum málum er sinnt en almennt séð er réttarstaðan skýr. Menn hafa sín réttindi. Stefnan er skýr. Við viljum efla og auka aðganga allra að skólakerfinu. Það gildir um alla í samfélaginu, hvar sem þeir eru staddir hverju sinni.