133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

skólavist erlendra barna.

446. mál
[18:32]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála hæstv. ráðherra í því að fyrst og fremst eru það hagsmunir barnanna sem við eigum að hafa í huga. Það er kannski einmitt þess vegna sem ég legg fram þessa fyrirspurn.

Hæstv. ráðherra talaði um að sumt af því sem kom fram í fyrri spurningu minni heyrði undir önnur ráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, eða dómsmálaráðuneyti. Ég geri mér að sjálfsögðu fulla grein fyrir því. En með þeirri spurningu vildi ég einmitt draga það fram að sennilega líta íslensk stjórnvöld ekki nógu heildstætt á þessi mál. Kannski er kerfið að þvælast of mikið fyrir okkur, þ.e. þetta heyrir undir þetta ráðuneyti, hitt heyrir undir hitt ráðuneytið og svo kemur þriðja ráðuneytið og það á að sjá um þennan pakka. Síðan höfum við aftur sveitarfélögin sem eru kannski fjórði parturinn í þessu, því að skólarnir eru náttúrlega á þeirra forræði, bæði leikskólar og grunnskólar.

Ég held að við ættum að reyna að rífa niður þær girðingar sem við höfum í kerfinu vegna þess að ég held að það sé að torvelda okkur mjög að geta tekið almennilega á málum eins og því sem ég hef verið að reyna að draga fram í fyrirspurn minni.

Við skulum athuga það, og ég held að við ættum að hafa það mjög í huga, að alltaf er verið að tala um að við þurfum að læra af reynslu nágrannaþjóðanna varðandi innflytjendur, hvernig þetta hefur verið í nágrannalöndunum. Ég hef aðeins skoðað það. Þangað komu einstaklingar, t.d. til Danmerkur, fengu vinnu og settust þar að, og voru kannski nokkur missiri. Svo kom næsta bylgja og það voru aðstandendur. Skyldmenni, makar eða börn, jafnvel önnur ættmenni og þá kannski skall á hin raunverulega bylgja.

Ég held að íslensk stjórnvöld verði að gera sér grein fyrir þessu og þá jafnframt að hjálpa til. Því ég held að það geti orðið mjög erfitt fyrir sveitarfélögin að ætla að leysa þessi mál eingöngu. Ég held að ríkisvaldið þurfi að koma þar til líka. Við höfum nýlega (Forseti hringir.) stefnu ríkisstjórnarinnar um aðlögun innflytjenda. Hún er svolítið óskýr en það er (Forseti hringir.) kannski skref í rétta átt. En þetta eru mál sem við þurfum virkilega að skoða, virðulegi forseti.