133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

skólavist erlendra barna.

446. mál
[18:35]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég get ekki tekið undir með hv. þingmanni að stefnan sé óskýr. Sú stefnumörkun sem kemur frá félagsmálaráðherra og er stefna ríkisstjórnarinnar í innflytjendamálum og málefnum útlendinga, er nefnilega mjög skýr. Hún er einmitt til þess fallin að brjóta niður þá hugsanlegu múra sem kunna að hafa verið á milli embætta eða stofnana í hinu opinbera kerfi, því unnið hefur verið þvert á allt stjórnkerfið varðandi mótun skýrslunnar og tillagnanna frá innflytjendaráði.

Ég vil geta þess að ég átti þar fulltrúa sem tók virkan þátt í undirbúningi að mótun innflytjendastefnunnar, sem er nú til umræðu í samfélaginu. Það er því verið að gera ýmsa hluti. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni að við eigum að líta til annarra þjóða, læra af reynslu þeirra og mistökum en líka af þeim hlutum sem eru vel gerðir.

Við erum að gera stórfellt átak í að efla íslenskukunnáttu útlendinga. Ég tel að við eigum að gera ríkar kröfur til útlendinga sem hingað koma og vilja setjast hér að hvað varðar íslenskukunnáttu og þekkingu. Við eigum ekki að slaka á þeim kröfum. Það er ekki út af neinni óbilgirni sem það er sagt, heldur miklu frekar erum við að líta til reynslu annarra þjóða, t.d. Hollendinga, ef það er gert mun aðlögunin verða miklu betri að íslensku samfélagi, vegna þess að við viljum að allir verði fullgildir þegnar sem hér vilja lifa og búa.