133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

samningar um rannsóknafé til háskóla.

493. mál
[18:47]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni enda eru mýmörg dæmi um að ríkisvaldinu beri að gera samninga við viðkomandi stofnanir eða aðila og þeim ber síðan að fylgja eftir enda verða viðkomandi stofnanir að geta haft eitthvert svigrúm fram í tímann til að skipuleggja starf sitt, bæði fjármögnun og innra starf í ljósi þess samnings sem þau starfa eftir hverju sinni.

Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni áðan að það hafa verið vaxtarverkir hjá Háskólanum á Akureyri. Hann hefur þanist út hlutfallslega hraðar en aðrir háskólar á landinu. En það er alveg ljóst að við munum halda áfram og það hefur líka þurft pólitískan vilja til að leyfa það að halda áfram. Við vildum fjölga háskólanemum, ekki bara sunnan heiða heldur líka fyrir norðan og það skiptir okkur máli, ekki eingöngu út frá byggðalegu tilliti heldur ekki síst út frá menntapólitísku sjónarmiði að byggja upp öfluga menntastofnun fyrir norðan. Ég lít ekki á Háskólann á Akureyri út frá byggðapólitík, ég vil ekki gera það af því að ég vil líta á Háskólann á Akureyri sem öfluga menntastofnun sem skiptir miklu máli fyrir íslenskt samfélag. Þess vegna segi ég af því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vildi fá einfalt svar: Ég mun beita mér fyrir því að Háskólinn á Akureyri fái áfram það svigrúm, svigrúm til að hann geti talið sig sem fullgilda akademíu eins og hv. þingmaður orðaði það. Að Háskólinn á Akureyri geti haldið áfram að vaxa á því sviði sem hann er sterkur, líka í nemendaígildum en ekki síður í rannsóknum. Við höfum verið að vinna að því og hlutfallslega er þessi aukning núna til rannsókna í Háskólanum á Akureyri miklu meiri en þekkist til annarra háskóla, eins og ég gat um áðan til Háskóla Íslands á þessu fjárlagaári, þannig að ég held að ráðamenn geti borið höfuðið hátt og haldið áfram að sigla á vit nýrra ævintýra og tækifæra.