133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

Tónlistarþróunarmiðstöðin.

494. mál
[18:52]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Hv. þm. Valdimar L. Friðriksson spyr eftirfarandi spurninga, í fyrsta lagi:

„Hvernig kemur ráðuneytið að starfsemi Tónlistarþróunarmiðstöðvarinnar?“

Tónlistarþróunarmiðstöðin eða TÞM sem rekin er í Reykjavík býður upp á listsköpunar- og æfingaraðstöðu fyrir hljómsveitir og tónlistarmenn og þar er tónleikasalur. Þar er einnig að finna leiklistarsal þar sem leikfélög æfa og setja upp leiksýningar. Aldur iðkenda er frá 14 ára til 50 ára en kjarninn er á aldrinum 15–25 ára.

Tónlistarþróunarmiðstöðin hefur unnið að því samhliða að stofna til samstarfs með tónlistarskólum þannig að æfingaaðstaða skólanna færist að hluta til yfir á miðstöðina þar sem skólarnir geta ekki að öllu leyti sinnt æfingum sökum aðstöðuskorts, opnunartíma og hávaða. Aðstandendur Tónlistarþróunarmiðstöðvar hafa leitað til ráðuneytisins um fjárhagslegan stuðning til starfsemi miðstöðvarinnar. Árið 2002 var óskað eftir því að ríkið keypti 10 millj. kr. eignarhlut í húsnæði fyrir Tónlistarþróunarmiðstöðina sem áætlað var að kostaði 50 millj. kr.

Á árunum 2004 og 2005 leitaði miðstöðin eftir rekstrarstyrk frá ráðuneytinu. Þessum erindum var synjað þar sem ráðuneytið hafði ekki fjárveitingar til slíks. Ráðuneytið hefur mótað þá stefnu að óráðstafaðar fjárveitingar á fjárlögum ár hvert til ráðuneytisins verði fremur varið til einstakra verkefnastyrkja en til reksturs ýmiss konar starfsemi á sviði lista, æskulýðsstarfs og íþrótta sem sveitarfélög eiga frekar að styðja rekstrarlega við, kjósi þau svo hverju sinni.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður:

„Veitir ráðuneytið miðstöðinni fjárhagslegan stuðning? Ef svo er ekki, hefur ráðherra fyrirætlanir um að veita henni slíkan stuðning?“

Ráðuneytið hefur í tvígang veitt Tónlistarþróunarmiðstöðinni verkefnastyrki, annars vegar úr tónlistarsjóði til tónleika á vegum miðstöðvarinnar upp á 300 þús. kr. á árinu 2005 og hins vegar 450 þús. kr. á árinu 2006. Tónlistarþróunarmiðstöðin getur eins og aðrir sem starfa á sviði tónlistar sótt um styrki tónlistarsjóðs til verkefna sem falla að verksviði sjóðsins og samrýmast úthlutunarreglum hans. Tónlistarráð fjallar um umsóknir, metur þær á grundvelli úthlutunarreglna sem allir eiga að þekkja og gerir tillögu um úthlutun til ráðuneytisins.

Eins og er hefur ráðuneytið ekki fyrirætlun um fjárstuðning til Tónlistarþróunarmiðstöðvarinnar umfram það sem fyrr greinir í svari mínu.