133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

fagháskólar.

549. mál
[19:04]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það er algjörlega nauðsynlegt að við höldum áfram að efla iðnnámið og starfsnámið á framhaldsskólastigi. Það er algjörlega nauðsynlegt fyrir okkur og þess vegna erum við að vinna áfram eftir þeim tillögum sem koma fram í starfsnámsskýrslunni. Þær eru í rauninni leiðarljós þeirra sem eru að vinna í öllum þeim hópum sem ég gat um áðan og byggjast á því samkomulagi sem við gerðum við Kennarasamband Íslands, svonefndum Tíu skrefum. Að mörgu er að hyggja hvað það varðar.

Hins vegar er líka ljóst, eins og hv. fyrirspyrjandi kom inn á, og talsmenn atvinnulífsins hafa líka bent á, að þarfir atvinnulífsins eru þær að efla starfsmenntun til viðbótar þeirri starfsmenntun sem er veitt í framhaldsskólunum. Þegar fólk er búið að ljúka framhaldsskólanámi á starfsnámssviði eða á iðnmenntasviði, verknámssviði, á það að geta fengið aukin tækifæri til að efla þá verkkunnáttu. Við þurfum að huga að því hvaða leiðir eru færar en ég segi enn og aftur: Ef við ætlum að fara að tala um þetta á háskólastigi vara ég við því að gefa einhvern afslátt á þeirra kröfum. Ég tel það mikilvægt fyrir námið sem slíkt að við gerum ýtrustu kröfur, þær kröfur sem við erum með til staðar í gegnum háskólalöggjöfina varðandi allt háskólanám. Það er til hagsbóta. Miklir hagsmunir eru fólgnir í því fyrir íslenskt samfélag að vera stíf á þeim gæðakröfum sem þar koma fram um leið og við verðum að finna leiðir til þess að sinna þörfum atvinnulífsins. Atvinnulífið kallar á þennan hóp. Hann vantar í dag.