133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

málefni Byrgisins.

[15:04]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs til að varpa nokkrum spurningum til hæstv. forsætisráðherra um málefni Byrgisins. Þau hafa mjög verið til umræðu á síðustu vikum og það sem hefur einkennt þá umræðu er að allir handhafar framkvæmdarvaldsins hafa verið á hröðum flótta undan ábyrgð í málinu svo að séð hefur undir iljarnar í hvert skipti sem það ber á góma. Það ber enginn ábyrgð á málinu samkvæmt því sem þeir segja. Það hefur ekkert gerst í því nema vegna sterkra viðbragða fjölmiðla og vegna harðrar gagnrýni stjórnarandstöðunnar.

Hver ber ábyrgð á því að Byrgið virðist hafa verið eftirlitslaust, bæði hvað fjármál varðar og starfsemi? Hver ber ábyrgð á því að ríkisstjórnin virðist hafa hunsað tilmæli vinnuhóps þriggja ráðuneyta árið 2002 um að stöðvaðar yrðu fjárveitingar til Byrgisins þangað til búið væri að koma á ábyrgri fjármálastjórn og eftirliti? Hver ber ábyrgð á því að kerfið brást fullkomlega þegar virtur geðlæknir varaði skriflega við þeim alvarlegu brotum sem talið er að hafi átt sér stað innan Byrgisins og sum vörðuðu við hegningarlög?

Í gær var hæstv. forsætisráðherra spurður að þessu í Silfri Egils. Í þeim þætti hafði hæstv. forsætisráðherra uppi ummæli um fórnarlömbin sem eru þess eðlis að þau dæma sig sjálf og ég ætla ekki að gera þau að umræðuefni hér. Forsætisráðherra fór hins vegar í nákvæmlega sama far og aðrir ráðherrar. Hann skaut sér og ríkisstjórninni undan ábyrgð.

En hæstv. forsætisráðherra fann aðra sökudólga. Hann sagði að menn hefðu skapað pólitíska histeríu og á honum var ekki hægt að skilja annað en þar hefði verið fyrst og fremst um að ræða Stöð 2, fyrrverandi embættismann, og stjórnarandstöðuna. Það er í annað sinn, frú forseti, sem hæstv. ráðherra reynir að klína þessu máli á stjórnarandstöðuna. Er það sem sagt þannig að hæstv. forsætisráðherra telji að þeir sem ekki fengu neinar upplýsingar um hvað var að gerast beri ábyrgðina en ekki ríkisstjórnin sem var vöruð við af lækni og vinnuhópi þriggja ráðuneyta? Ég vil því fá hreint borð í þessu máli og ég spyr hæstv. forsætisráðherra í sölum þingsins: Hver ber ábyrgðina á öllum þeim mistökum og öllu því sem fór úrskeiðis í Byrginu? Er það hann og ríkisstjórn hans eða er það einhver annar?