133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

málefni Byrgisins.

[15:06]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Þetta hörmungarmál sem tengist Byrginu er vissulega margþætt. Hv. ræðumaður nefndi til virtan geðlækni sem hafði skrifað landlæknisembættinu bréf árið 2002. Ég veit ekki betur en embættið hafi beðið þann mann afsökunar á því að honum var ekki svarað. Ég kann ekki frekari svör hvað það atriði varðar.

Það sem er aðalatriðið núna er að leysa úr vanda þess fólks sem áður voru skjólstæðingar Byrgisins. Byrgið sem sjálfseignarstofnun og rekstraraðili að Efri-Brú er ekki til lengur. Ríkið mun væntanlega selja eignirnar þar. En það er fólk sem þar var skjólstæðingar sem þarf að hugsa um og hlúa að, ekki síst þær konur sem nefnt hefur verið að hafi orðið barnshafandi í kringum dvöl sína í Byrginu. Nú er reyndar ekki víst að það hafi endilega orðið meðan þær völdu í Byrginu, það eru komnar nýjar upplýsingar að hluta til fram um það, en það er ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er að þær og aðrir skjólstæðingar fái aðstoð, aðhlynningu og umhyggju og það mun verða gert. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að geðsvið Landspítalans standi þessu fólki opið. Móttökudeildin á spítalanum stendur þeim opin og það mun verða myndað sérstakt teymi sérfræðinga til að annast þennan hóp. Þetta er aðalatriðið í augnablikinu.

Hvað varðar fortíðina þá veit ég að hv. þm. Össur Skarphéðinsson kannast við það að hér á Alþingi voru háværar raddir um að veita bæri meiri fjármuni til Byrgisins. Það þarf ekki annað en skoða umræður á Alþingi fyrir fjárlög 2003, 2004 og 2005 til að komast að raun um hvernig sú krafa var. Þá var fallist á að láta umtalsverða fjármuni til Byrgisins, eins og allir vita, á þeim grundvelli.