133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

málefni Byrgisins.

[15:13]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson segir að handhafar framkvæmdarvaldsins séu á stöðugum flótta undan málinu. Þetta er alveg ótrúleg ummæli ekki síst í ljósi þess að hæstv. félagsmálaráðherra sendi einmitt ríkisendurskoðanda erindi og bað um að hann færi yfir málefni Byrgisins áður en fjölmiðlaumfjöllun hófst.

Hv. þm. Jón Bjarnason veifar hér skýrslu. Ég veit ekki betur en hæstv. þáverandi forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, hafi svarað fyrirspurn á hinu háa Alþingi um þá skýrslu í nóvember árið 2002 og þá vissu allir af skýrslunni. Því furða ég mig á þessum málflutningi, virðulegi forseti.

En ég vil taka undir með hæstv. forsætisráðherra að nú liggur á að hugsa um og hlúa að fyrrum skjólstæðingum Byrgisins. Nákvæmlega sú hugsun var uppi á borðinu í félagsmálanefnd á fundi á föstudag. Hæstv. forsætisráðherra sagði áðan að mynda ætti sérstakt teymi til að hjálpa þeim einstaklingum og er það alveg í takt við bókun félagsmálanefndar frá þeim fundi, en að þeirri bókun stóðu allir fulltrúar eða nefndarmenn í félagsmálanefnd. Mig langar að vitna, með leyfi forseta, í þá bókun:

„Félagsmálanefnd Alþingis hefur farið yfir málefni Byrgisins og vill í framhaldi af þeirri umfjöllun skora á ríkisstjórnina að grípa þegar til eftirfarandi aðgerða: Landlæknisembætti verði strax falið að mynda starfshóp sem skipaður verði þremur fulltrúum starfsfólks á geðheilbrigðissviði. Starfshópnum verði falið að ræða við fyrrum skjólstæðinga Byrgisins og tryggja að þeim verði tafarlaust veitt sú aðstoð sem þurfa þykir innan heilbrigðis- og félagslega kerfisins. Sömuleiðis að þeir njóti allra þeirra réttinda sem lög um réttindi sjúklinga kveða á um. Mikilvægt er að starfshópurinn vinni hratt og hafi að leiðarljósi öryggi og velferð þeirra einstaklinga sem í hlut eiga.“

Virðulegi forseti. Mikilvægt er að leiða hið sanna í ljós í málinu og huga að stöðu fyrrum skjólstæðinga Byrgisins. Það er enginn á flótta undan ábyrgð í málinu.