133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

málefni Byrgisins.

[15:15]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Aumingja vesalings ríkisstjórnin, hún var blekkt. Hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra var blekktur, ríkisstjórnin öll var blekkt og hæstv. forsætisráðherra var blekktur. Það er vörnin í þessu máli.

Frú forseti. Liggur það ekki alveg fyrir að stofnun sem starfaði undir fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra fékk bréf þar sem hún var vöruð við því að það væri verið að beita stúlkur allt niður í 15 ára gamlar ofbeldi á þessari stofnun? Hver ber hina formlegu ábyrgð á því að því bréfi virðist ekki hafa verið komið á framfæri til réttra aðila? Hver ber ábyrgð á því að skýrslu þriggja vinnuhópa sem skrifuðu tilmæli í minnisblaði sem barst inn á borð til hæstv. ríkisstjórnar var stungið undir stól? Hver ber ábyrgð á því að hv. fjárlaganefnd fékk ekki að sjá þær aðfinnslur sem menn höfðu sett fram um fjármálaóreiðuna í Byrginu?

Svo kemur hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra og segir: Við vorum blekkt.

Þeir voru ekki blekktir sem fengu bréfið frá geðlækninum. Þeir voru ekki blekktir sem fengu (Gripið fram í.) skýrsluna frá vinnuhópi þriggja ráðuneyta. Það þýðir ekkert fyrir hv. þingmenn Framsóknarflokksins að vera að gaspra hérna fram í. Það vita allir hverjir eru upphafsmenn þessa máls. Það var Framsóknarflokkurinn og það var hann sem fór með heilbrigðisráðuneytið, það var hann sem fór með félagsmálaráðuneytið og það er hann sem ber hina faglegu ábyrgð á þessu máli.

Það sem stendur líka upp úr er það að hæstv. forsætisráðherra kom hingað og hann hafði ekki í sér réttlætistaugina til þess að segja við fórnarlömbin að þær hefðu verið beittar ranglæti. Auðvitað er það fyrsta skrefið til þess að bæta úr að viðurkenna það og gera síðan allt sem hægt er til þess að bæta þeirra hlut. Menn verða að hunskast til þess að sjá hvað þeir hafa gert af sér og þeir eiga að biðjast afsökunar á svona.