133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

frammíköll.

[15:29]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Virðulegur forseti. Ég geri ráð fyrir að mér sé heimilt að tjá mig hér undir liðnum um fundarstjórn forseta með svipuðum hætti og ræðumenn á undan mér hafa gert þó að í því máli sem ég þarf að taka hér upp sé ekki beint við forseta að sakast. En ég hlýt eitthvað að mega verja hendur mínar úr því að forseti hefur það umburðarlyndi gagnvart öðrum ræðumönnum að leyfa þeim að ráðast á mig sérstaklega persónulega undir því yfirskini að þeir séu að ræða fundarstjórn forseta, eins og hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson gerði áðan.

Það er má segja einkenni á þeim sem hafa vondan málstað að verja og sérstaklega ef þá skortir kjark til viðbótar til að gangast við því sem á dagskrá er að þeir reyna að forðast að ræða efni málsins. (Gripið fram í.) Við urðum hér mjög vör við það að talsmenn stjórnarliðsins lögðu ekki í umræður um stjórnskipulega og lagalega ábyrgð ráðherra á málefnum sem undir þá heyra heldur fóru út í þann fáfengilega málflutning að reyna að kenna stjórnarandstöðunni um. (Gripið fram í.)

(Forseti (SP): Hv. þingmaður á að ræða um fundarstjórn forseta.)

Já, já, ég er að því með sama hætti og aðrir hafa gert hér á undan mér.

Málflutningurinn dæmir sig sjálfur og það er ekkert við því að gera nema að vísa honum til föðurhúsanna, málflutningi af því tagi sem hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson hafði hér í frammi.

Það kann vel að vera, virðulegur forseti, að það hendi mig stundum að tuldra blótsyrði, ég viðurkenni þann ósið upp á mig. Ég tel hann ekki stórvægilegan. Á mínum heimaslóðum, svona í bænda- og sjómannasamfélagi, gerist það vissulega að þegar fýkur í menn missa þeir út úr sér blótsyrði. Ég veit að það er auðvitað leiður siður en ég tel hann nú ekki stóralvarlegan. Ég tel ekki að það eigi að valda mönnum mikilli hugarangist, jafnvel þó að þeir séu aldir upp í kristilegu siðgæði og sýni það iðulega í ræðustóli eins og hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson (Gripið fram í: Þú þekkir það nú.) sem ber hér mannkærleikann á borð umfram alla aðra menn eins og kunnugt er.

Virðulegi forseti. Mér finnst bara yfir höfuð ákaflega dapurlegt að umræður um þessi sorglegu en um leið mjög alvarlegu mál sem hér hefur borið á góma skuli þurfa að lenda í hremmingum málflutnings af þessu tagi. Annars vegar eiga í hlut djúpstæðir mannlegir harmleikir en hins vegar auðvitað grafalvarlegir pólitískir atburðir sem lúta að ábyrgð ráðherra og vanrækslu ráðherra í starfi. Það er nefnilega þannig, virðulegur forseti, að samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð (Forseti hringir.) eru aðgerðaleysi, vanræksla og skortur (Forseti hringir.) á frumkvæði jafnalvarleg afbrot og bein brot.

Ég hlýt, frú forseti, að mega tjá mig eitthvað um þetta málefnalega eins og aðrir hafa leyft sér á undan mér. Ég hlýt að mega verja hendur mínar. Ég get beðið um orðið til að bera af mér sakir ef forseta finnst það betra.

(Forseti (SP): Hv. þingmaður hafði tækifæri til að ræða þetta mál undir liðnum um störf þingsins.)

Ég komst ekki að og það var á mig ráðist á eftir umræðunni í umræðu undir liðnum um fundarstjórn forseta.

(Forseti (SP): Hv. þingmaður er kominn út í efnislega umræðu um málið. Honum ber að halda sig við að ræða um fundarstjórn forseta.)

Eru árásir á stjórnarandstöðuna ekki efnisleg umræða, frú forseti, af því tagi sem hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson fór hér með áðan? (Gripið fram í: Er hann að kvarta yfir því?) Ég er ófeiminn við (Forseti hringir.) rökræður, hv. þingmaður.