133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

niðurstöður loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna.

[15:33]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Í niðurstöðum 4. matsskýrslu milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar er kveðið mun fastar að orði en áður hefur verið gert um að það séu athafnir mannsins, þ.e. útstreymi gróðurhúsalofttegunda vegna mannlegra athafna, sem séu valdar að þeirri hlýnun veðráttu og loftslagsbreytingum sem við stöndum frammi fyrir. Í síðustu skýrslu, skýrslu nr. 4, segir að það sé mjög líklegt að þessar breytingar, sú mikla hlýnun sem nú er mæld og staðreynd, sé af völdum útstreymis gróðurhúsalofttegunda vegna mannlegra athafna og að einungis sé hægt að skýra breytingarnar með vísan til þeirra. Það þýðir með öðrum orðum á máli tölfræðinnar að það séu yfir 90% líkur á að ekkert annað geti skýrt þessar breytingar en losun gróðurhúsalofttegunda af völdum mannlegra athafna.

Mat á hlýnun fer hækkandi með hverri skýrslu. Í skýrslu nr. 2 á árinu 1995 var þannig talið líklegt að hlýnunin á þessari öld, þ.e. 21. öldinni, yrði á bilinu 1–3,5 gráður. Í þriðju skýrslunni sem kom árið 2001 var búið að rýmka þessi mörk og líklegast var talið að þetta lægi á bilinu 1,4–5,8 gráður. Nú í 4. skýrslu loftslagsmilliríkjanefndarinnar er talið að þetta hitabil sé á bilinu 1,1 og upp í 6,4 gráður. Af þessu sést hversu gríðarlega alvarlegir hlutir eru á ferð. Síðan nægir að vísa til þeirra vísbendinga sem hrannast upp um hraðari bráðnun jökla en áður hefur verið ljós um hækkun á sjávarborði og mikla röskun á vistkerfum o.s.frv. Staða alþjóðlegrar viðleitni til að koma böndum á þessa hluti er sú að í hönd fer fyrsta tímabil Kyoto-bókunarinnar, árin 2008–2012, og viðræður um framlengingu þeirra skuldbindinga sem þar eru og ætlunin er, og vel að merkja ríkin hafa heitið því að ganga til viðræðna um slíkar framtíðarskuldbindingar, að grípa til frekari ráðstafana í framhaldinu. Ísland fékk eins og allir vita óvenjuvægilega meðhöndlun í Kyoto-bókuninni, heimild til almennrar losunar um 10% umfram það sem var 1990, og síðan kom til sögunnar hið fræga íslenska sérákvæði eða undanþága upp á 1,6 millj. tonna koltvísýringslosunar á ári á þessu sama tímabili eða 8 millj. tonna koltvísýrings alls.

Það virðist samt engu að síður ekki nóg og áform ríkisstjórnarinnar um að leyfa uppbyggingu stóriðju sem fer út fyrir þessi mörk og sprengir þau blasa við. Ég vil því spyrja hæstv. umhverfisráðherra í þessu samhengi í fyrsta lagi: Hvernig metur ráðherra niðurstöður skýrslunnar og hvaða áhrif er hún líkleg til að hafa að mati ráðherrans á þróun mála á alþjóðavettvangi, ekki síst á kröfur um róttækari aðgerðir til að stemma stigu við losun gróðurhúsalofttegunda? Ég vísa t.d. til þróunar mála innan Evrópusambandsins þar sem menn ræða nú um 30% niðurskurð losunar fyrir 2020.

En það er einnig óhjákvæmilegt að spyrja um áform ríkisstjórnarinnar hér heima. Spyrja ríkisstjórn Íslands að því, þá sem enn situr, hvort það sé alveg sama hversu alvarlegar niðurstöður hrannast upp um afleiðingar gróðurhúsamengunarinnar, loftmengunarinnar, að ekkert fái haggað áformum ríkisstjórnarinnar um gríðarlega viðbótaruppbyggingu mengandi stóriðju hér á landi. Því spyr ég í öðru lagi: Hyggst ríkisstjórnin endurmeta áform um frekari uppbyggingu mengandi stóriðju á Íslandi í ljósi niðurstöðu skýrslunnar? Og það er ærin ástæða að spurt sé því að við þekkjum þau áform sem fyrir liggja um þrjú ef ekki fjögur viðbótarálversverkefni á komandi árum, stækkun eða nýbyggingar.

Í þriðja lagi spyr ég: Hvaða áhrif sér ráðherrann fyrir sér að niðurstaða skýrslunnar muni hafa á afstöðu íslenskra stjórnvalda í viðræðum um framhald Kyoto-ferlisins eftir 2012? Ég spyr m.a. í ljósi þess að á heimasíðu umhverfisráðuneytisins kemur skýrt fram að þar á bæ gera menn ráð fyrir að losunin fari út fyrir tilskilin mörk en það eigi þá að vísu að vera á ábyrgð stórfyrirtækjanna. Þannig stendur á heimasíðu ráðuneytisins um frumvarp það sem ráðherra kynnti í ríkisstjórn að það komi ekki í veg fyrir að losun stóriðju á Íslandi verði umfram heimildirnar. Sama sagði hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra og núverandi utanríkisráðherra í útvarpsviðtali 24. janúar sl. og gaf sterklega í skyn að sótt yrði um viðbótarundanþágur umfram þau 1,6 millj. tonn á ári sem núgildandi ákvæði felur í sér.