133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

niðurstöður loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna.

[15:48]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé nú ekki lengur neinn vafi á því að jörðin er að hitna þó nokkuð og það er heldur ekki mikill vafi á því að það er að verulegum hluta til a.m.k. af mannavöldum.

Ég veit ekki hvort þingmenn sáu kvikmynd Als Gores, fyrrverandi forsetaframbjóðanda Bandaríkjanna, myndina „Óþægilegur sannleikur“. Það var nokkuð merkileg lífsreynsla að sjá þá mynd og ég hvet þá þingmenn sem ekki hafa séð hana að verða sér úti um hana og skoða hana. Hún ætti að vekja alla til umhugsunar um þessi mál. Það eru mjög sterkar vísbendingar um að sökudólgurinn í þessu öllu saman sé einmitt mannskepnan.

Þetta leiðir svo aftur hugann að því hver hlutur okkar Íslendinga eigi að vera í þessu öllu saman. Það er alveg rétt að við Íslendingar búum að vissu leyti við mjög góð skilyrði hvað varðar orku og orkuöflun, við höfum verið mjög dugleg að nýta þá orku sem við höfum á Íslandi, þau gríðarlegu auðæfi sem við höfum í formi vatnsafls og jarðhita, ekki vegna þess að við höfum verið svo umhverfisvæn eða umhverfislega sinnuð heldur kannski vegna þess að við höfum séð efnahagslegan ávinning í því að nýta okkar eigin auðlindir okkur til hagsbóta og kannski ekki nema gott eitt um það að segja svo framarlega sem hófs er gætt.

Á hinn veginn höfum við kannski ekki verið til mjög mikillar fyrirmyndar til að mynda hvað varðar brennslu á kolvetnasamböndum, þ.e. á eldsneyti. Fiskiskipaflotinn okkar er til að mynda keyrður áfram að mjög stórum hluta af stórum skipum með mjög stórar vélar og við stundum veiðiaðferðir þar sem mikilli olíu er brennt og mengunin af þeim sökum hlýtur að vera umtalsverð. Þarna gætum við að sjálfsögðu tekið okkur tak, við gætum líka endurskoðað fleiri hluti, t.d. bílaflota landsmanna og þannig mætti áfram telja. En það er rétt sem komið hefur fram, það skortir mjög á framtíðarsýn (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar í þessum málum og stefnumótun.