133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

niðurstöður loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna.

[15:58]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu, ég hafði beðið um hana sjálfur en hann var aðeins sneggri til. Það er alveg rétt sem hefur komið fram að hér er um alvarleg tíðindi að ræða en það er mjög mikilvægt að við höldum til haga réttum upplýsingum og mér fannst eins og hv. þingmaður hafi kannski gleymt því að fara yfir þá sérstöðu sem við Íslendingar höfum, en eins og fram hefur komið eru 72% af orkugjöfum okkar endurnýjanlegir. Sambærilegt hlutfall í heiminum er 10–15%.

Hvað þýðir þetta ef menn ætla að ná einhverjum árangri í heiminum í að minnka útstreymi CO 2 ? Þá verða menn að fara sambærilegar leiðir við þær sem Íslendingar hafa farið. Enda trúi ég ekki öðru en bæði hv. þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna hafi vitað þetta þar sem þeir hafa nú beitt sér fyrir stóriðju og t.d. að fyrirtækið Orkuveita Reykjavíkur færi út í stóriðju sem hún hafði ekki gert fram til þessa. Þetta er ágætlega rakið í Stern-skýrslunni þar sem Ísland er sérstaklega tekið sem dæmi um vonarglætu, þ.e. ef menn haldi áfram uppbyggingu á orkufrekum iðnaði þá sé það gert með þeim hætti sem við höfum gert hér.

Bara svo að menn setji þetta í eitthvert samhengi, vegna þess að þetta var ekki sjálfgefið, en ef við hefðum ekki vistvæna orkugjafa eins og hitaveitu og rafveitu þá væru hér ekki í útstreymi 3 milljónir tonna af CO 2 , heldur 18 milljónir tonna, þ.e. ef við notuðum kol. Þetta auðvitað skiptir máli.

Það skiptir hins vegar máli í þessu tilliti á þessum stutta tíma að við ræðum hvað við ætlum að gera til að minnka útstreymi okkar enn frekar og setja markið hærra. Það er ánægjulegt til þess að vita að t.d. hafa vörugjöld á vistvænum bifreiðum verið lækkuð og ég veit til þess að fjármálaráðherra er að undirbúa vinnu til þess að umhverfisflokka bifreiðir til þess að festa það enn frekar í sessi. Við þurfum auðvitað að auka tækninýjungar og sömuleiðis bindingu á CO 2 og þetta er eitthvað sem menn eru að vinna að, (Forseti hringir.) ekki bara á vegum hins opinbera heldur vonandi líka (Forseti hringir.) hjá fyrirtækjum því að hér þurfa allir að leggjast á árarnar.