133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

niðurstöður loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna.

[16:00]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Flestir vísindamenn eru nú orðnir sammála um að sú mengun sem á sér stað sé af mannavöldum og fáir treysta sér heldur í dag til þess að mótmæla því að það sé staðreynd enda ekki ástæða til, fyrir því hafa verið færð mörg rök. Hlýnunin er talin vera meiri á norður- og heimskautasvæðunum en t.d. við miðbaug og er það auðvitað eitthvað sem við Íslendingar þurfum að huga að. Grænlandsjökull er einnig talinn rýrna hraðar en áður var talið.

Það ánægjulega kannski í þessari upptalningu er að ekki eru taldar líkur á meiri háttar röskun á straumakerfi heimshafanna á þessari öld. Það er vísu svolítið nýtt því að sumir hafa haldið því fram einmitt að innan tiltölulega fárra ára eða áratuga gæti orðið veruleg breyting á straumakerfi hafanna. Ef þetta er marktæk niðurstaða er það vísbending fyrir okkur um að við þurfum ef til vill ekki að hafa eins miklar áhyggjur af straumakerfinu og ella væri.

Ég vil hins vegar benda á það, hæstv. forseti, að Íslendingar geta lagt margt af mörkum í þessu efni varðandi mengun lofthjúpsins. Við höfum sérþekkingu á jarðhitanýtingu, við búum þar yfir mikilli tækni. Við erum búin að stunda þá atvinnugrein að nýta orku jarðar í mörg ár og áratugi. Við getum flutt þessa orkuþekkingu út í auknum mæli og kynnt hana öðrum þjóðum og stuðlað að því að aðrar þjóðir geti nýtt slíka orku hjá sér. Það mun eitt og sér þýða að það dregur úr brennslu jarðefnaeldsneytis sem mun draga úr mengun lofthjúpsins. Ég tel að þarna sé verk fyrir okkur að vinna og stjórnvöld ættu að setja fram tillögur um hvernig þau geti ýtt undir slíka þróun og útflutning á reynslu okkar frá Íslandi.