133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[16:07]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Í fyrsta lagi eru lagðar til tvær tæknilegar breytingar sem nauðsynlegar eru vegna breytingar á lægra skattþrepi virðisaukaskatts úr 14% í 7%, sem lögfest var með lögum nr. 175/2006 og tekur gildi 1. mars næstkomandi.

Í öðru lagi er með frumvarpinu lagt til að heimild til að nota skemmra uppgjörstímabil en einn mánuð verði afnumin. Þessi heimild var upphaflega sett til að draga úr áhrifum fjárbindinga við yfirfærsluna á söluskattskerfi í virðisaukaskattskerfi. Þessi skilamáti þjónar nú aðeins örfáum gjaldendum eða nánar tiltekið fjórum aðilum í janúar 2007. Þau valda allmiklum flækjum, bæði við almenna framkvæmd og við þróun rafrænnar þjónustu auk þess sem uppfærslur og breytingar á tölvukerfum eru flóknari en ella. Er því lagt til að heimildin verði felld úr gildi.

Frú forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.