133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins.

561. mál
[16:09]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum er varða lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins.

Með frumvarpinu eru í fyrsta lagi lagðar til breytingar á lögum um lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og lögum um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga í tilefni af samkomulagi Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um samræmingu lífeyrisréttinda samkvæmt lífeyrisreglum ríkisstarfsmanna. Samkomulagið var undirritað í Stokkhólmi 1. júní 2001 og öðlaðist gildi 1. mars 2002, samanber auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 38 frá 31. desember 2001. Samkomulagið leysir af hólmi eldra samkomulag Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar frá 18. desember 1973 og felur í sér samhæfingu lífeyrisréttinda ríkisstarfsmanna, einkum á eftirfarandi sviðum:

Við útreikning lífeyrisréttinda sem byggjast á lengd starfstíma eða sambærilegum tímaskilyrðum sé litið til samsvarandi starfstíma í öðru norrænu landi.

Ríkisstarfsmaður geti, í því landi sem starfslok verða, virkjað þau lífeyrisréttindi sem hann hefur öðlast í öðru norrænu landi frá sama tíma, en þau verði þá oft fyrir skerðingu sem er mismunandi eftir reglum hvers lands.

Mat á heilsufari við fyrri ráðningu í starf verði almennt lagt til grundvallar við útreikning lífeyris samkvæmt lífeyrisreglum annars norræns lands.

Úrskurður um örorkulífeyri í einu landi sé lagður til grundvallar við útborgun örorkulífeyris í öðru norrænu landi.

Í einstökum vafamálum sem upp kunna að koma um framkvæmd samkomulagsins er gert ráð fyrir að löndin hafi samráð áður en máli er ráðið til lykta.

Jafnframt gerir samkomulagið ráð fyrir því að ákveðin samhæfing og samvinna eigi sér stað milli Norðurlandanna um útreikning og útborgun lífeyris fyrir þá ríkisstarfsmenn sem í hlut eiga.

Í öðru lagi er með frumvarpinu lagt til að starfsmönnum alþjóðastofnana, sem Ísland á aðild að samkvæmt lögum eða fjölþjóðlegum samningum, verði að uppfylltum vissum skilyrðum veittur réttur til að greiða iðgjald til B-deildar sjóðsins á meðan starfstími þeirra erlendis stendur.

Í þriðja lagi er með frumvarpinu lögð til lækkun á viðbótarframlagi sveitarfélaga vegna lífeyrisiðgjalds kennara og skólastjórnenda grunnskóla. Er breytingin lögð til þar sem með lögum nr. 167/2006, um breytingu á lagaákvæðum um lífeyrissjóði, hækkaði mótframlag í B-deild sjóðsins úr 6% í 8%. Að óbreyttu hækkar því heildariðgjaldið vegna kennara úr 15,5% í 17,5% en það var ekki ætlunin. Er því sú breyting sem hér er lögð til nauðsynleg til að koma í veg fyrir að útgjöld sveitarfélaga hækki vegna hækkaðs mótframlags í B-deild sjóðsins.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.