133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

40. mál
[16:15]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða.

1. gr. frumvarpsins er svohljóðandi:

„Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:

Þrátt fyrir önnur ákvæði þessara laga er öllum þeim íslenskum ríkisborgurum sem hafa tilskilin réttindi til skipstjórnar og vélstjórnar, ef þess er krafist vegna stærðar vélar viðkomandi báts, að stunda fiskveiðar á eigin bát með tveimur sjálfvirkum handfærarúllum. Báturinn skal vera undir 30 brúttórúmlestum að stærð og uppfylla skilyrði um sjálfvirka tilkynningarskyldu. Báturinn skal hafa viðurkennt haffæri. Á hverjum bát mega vera tveir menn í áhöfn og er hámarksfjöldi sjálfvirkra rúlla þá fjórar rúllur á tvo menn. Að fimm árum loknum skal skoðuð reynslan af þessum veiðum með tilliti til þess hvort setja eigi viðbótartakmarkanir sem taki eingöngu til veiðisvæða bátanna og fjölda veiðidaga.

Veiðar þessara báta eru ekki reiknaðar til aflamarks og hafa ekki áhrif á heildarúthlutun aflamarks til annarra fiskiskipa.“

2. gr. er að lög þessi öðlist þegar gildi.

Það fylgir svofelld greinargerð, með leyfi forseta:

„Frumvarp þetta var áður lagt fram á 132. löggjafarþingi en varð ekki útrætt.

Það hefur löngum verið réttur Íslendinga við sjávarsíðuna að fá að róa til fiskjar og útróðrajarðir voru líklegri til þess að brauðfæða fólkið og gefa tekjur en þær jarðir sem illa lágu við fiskislóð. Útróðraréttur var metinn sem verðmæti í jörðum og talinn til hlunninda. Í gömlum lögum var öllum tryggður veiðiréttur í fjörðum og flóum. Þannig orðað að rétt ættu menn til fiskveiði sinnar nema síldveiði sem öllum væri heimilt að stunda hvar sem væri. Landsmenn áttu þannig allir tryggan forgang til botnfiskveiða næst sínum byggðum. Með þessu frumvarpi verður þeim sem rétt hafa til þess að stjórna skipum veittur þessi veiðiréttur á nýjan leik.“

Hæstv. forseti. Í lögum um stjórn fiskveiða eru enn þá inni nokkur viðlagaákvæði við þeirri framkvæmd laganna sem felst í því að atvinnurétturinn getur færst burtu nánast fyrirvaralaust þegar handhafi veiðiréttarins ákveður svo, hvort sem það er gert með leiguframsali svokölluðu, leigu á aflamarkinu eða varanlegri framsölu og afhendingu á aflahlutdeildinni. Við þessu hefur verið reynt að bregðast í lögum um stjórn fiskveiða, þ.e. því mikla óvissuástandi sem fylgir lögunum af því að þau eru svona úr garði gerð, með því að hafa sérstakt viðlagaákvæði um byggðapotta svokallaða sem hafa verið settir á af ýmsum tilefnum. Þeir hafa m.a. verið settir á vegna aflabrests í sjávarbyggðum sem hafa misst frá sér hefðbundinn veiðirétt vegna þess að veiðar hafa lagst af t.d. á hörpuskel eða innfjarðarrækju — sem var veiðiskapur sem víða var stundaður í fjörðum frá Breiðafirði og norður og austur um og hélt víða uppi atvinnu í hinum minni byggðarlögum — bæði vegna veiðanna og eins vegna vinnslu rækjunnar. Sama átti við um hörpuskel í Breiðafirði og reyndar víðar á árum áður.

Við þessu hefur verið brugðist með sérstöku viðlagaákvæði, auk þess sem tekin er frá sérstök 12 þúsund tonna heimild í lögum um stjórn fiskveiða til þess að úthluta til byggða þar sem atvinnubrestur hefur af einhverjum orsökum orðið — vegna þess að aflaheimildir hafa farið úr byggð eða aðrar ófyrirsjáanlegar orsakir hafa orðið til þess að atvinna hefur hrunið í viðkomandi byggðarlagi. Þetta eru einu viðbrögðin sem mönnum eru heimil í hinum ýmsu dreifðu sjávarbyggðum að því er varðar lögin um stjórn fiskveiða. Ég hef því kosið að kalla þessa byggðapotta viðlagaákvæði — viðlagaákvæði til að bregðast við því sem upp kemur vegna þess að löggjöfin er eins og hún er. Það er sem sagt verið að reyna að útdeila atvinnurétti til byggða sem hafa misst hann frá sér af áðurnefndum orsökum.

Það litla frumvarp sem hér er lagt til er viðbót að því leyti til að hér er mönnum gert heimilt að stunda veiðar á eigin skipi — ég ítreka það, hæstv. forseti, á skipi sem menn eiga sjálfir — sem eru undir 30 brúttórúmlestum og að hámarki með fjórar handfærarúllur, tveir menn eða tvær rúllur á einn mann. Hér er sem sagt verið að opna ákvæði sem ekki þarf að sækja um til sjávarútvegsráðuneytisins heldur er mönnum þá heimilt að reyna að bjarga sér undir þessari þó takmörkuðu reglu um það að stunda atvinnu sína við fiskveiðar í byggðum sem þá jafnvel hefðu misst frá sér heimildir samkvæmt hinu svokallaða aflamarkskerfi sem við vinnum eftir, kvótakerfinu, vegna þess að einhver annar hafi framselt atvinnuréttinn burt úr byggðarlaginu.

Við þingmenn Frjálslynda flokksins, sem höfum flutt þetta mál hér á hv. Alþingi, teljum að um sé að ræða ákveðin réttindi sem verið er að fá því fólki sem býr við sjávarsíðuna, hefur til þess tilskilin réttindi að stunda fiskveiðar — þ.e. skipstjórnarréttindi, vélstjórnarréttindi — uppfyllir það skilyrði að hafa eignarhald á bát sem má nota til þessara veiða — þó ekki stærri en 30 brúttórúmlestir — bát sem hefur viðurkennt haffæri og uppfyllir sjálfvirka tilkynningaskyldu o.s.frv. og að sjálfsögðu önnur þau lög og reglur sem gilda um veiðar.

Hér er sem sagt um takmörkuð réttindi að ræða, hæstv. forseti, en samt opnun frá því sem nú gildir í þessari atvinnugrein. Við mælum með því, þingmenn Frjálslynda flokksins, sem flytjum þetta mál, að það fái fljóta og góða afgreiðslu í sjávarútvegsnefnd enda er þar verið að fjalla um mál eins og byggðakvótann og sportveiðar, svokallaðar túristaveiðar, og útfærslu á reglum er varða byggðakvótann einmitt með því markmiði að reyna að tryggja atvinnu í byggðunum. Hér er um að ræða einn þátt í því að reyna að opna á möguleika fyrir fólk í sjávarbyggðum til þess að stunda veiðar, óháð því hvort menn hafi selt eða leigt aflaheimildirnar frá byggðinni. Það er sem sagt verið að auka réttarstöðu þess fólks sem býr í sjávarbyggðunum umfram það sem núverandi lög heimila. Ég hvet eindregið til þess, hæstv. forseti, að þingmenn skoði þetta með jákvæðum huga ásamt þeim lagfæringum sem verið er að gera núna á byggðakvótanum, sem er í raun og veru eina viðlagaákvæðið sem eftir er í lögunum um stjórn fiskveiða sem, eins og allir vita, geta valdið því að atvinnuréttur hverfur úr byggð á einni nóttu. Því miður eru lögin þannig úr garði gerð og nægir hjónaskilnaður til. Ef fólk ætlar að skipta atvinnuréttinum, eða krefst þess að atvinnurétturinn skiptist, er það oft niðurstaðan að menn neyðast til að selja. Verðmætið á óveiddum fiski í sjónum er það hátt að mjög fáir ná að leysa til sín slíkan uppskiptarétt ef það skiptir tugum eða jafnvel hundruðum milljóna.