133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

staðbundnir fjölmiðlar.

17. mál
[16:24]
Hlusta

Flm. (Dagný Jónsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um staðbundna fjölmiðla. Ásamt mér eru flutningsmenn hv. þingmenn Birkir J. Jónsson, Björgvin G. Sigurðsson, Drífa Hjartardóttir, Hjálmar Árnason, Sæunn Stefánsdóttir, Sigurjón Þórðarson og Þuríður Backman.

Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa nefnd er athugi stöðu staðbundinna fjölmiðla og rekstrarumhverfi þeirra og skili skýrslu. Í skýrslunni verði gerð grein fyrir þróun markaðarins undanfarin ár og, ef þurfa þykir, komið með tillögur um beinar eða óbeinar aðgerðir sem ríkisstjórn og Alþingi gætu gripið til í því skyni að efla rekstrargrundvöll staðbundinna fjölmiðla.“

Þessi tillaga hefur verið flutt tvisvar áður og hlotið góðar undirtektir, alla vega við 1. umr. Það liggja fyrir umsagnir í þessu máli og þær eru jákvæðar og ég vona að við náum að klára málið í þetta skipti.

Ég ætla, virðulegur forseti, ekki að hafa um þetta mjög langt mál. Ég vil þó geta þess að til að mynda ein leið til þess að standa vörð um þessa fjölmiðla eru ríkisstyrkir. Það kemur t.d. fram í tilmælum Evrópuráðsins að ríki hugi að því hvort ástæða sé til að veita prentmiðlum og útvarpsmiðlum sérstakan fjárstuðning, einkum svæðisbundnum miðlum. Að teknu tilliti til samkeppnissjónarmiða skuli miðað við að stuðningur af þessu tagi sé byggður á hlutlægum sjónarmiðum, á grundvelli gegnsærra reglna og málsmeðferðar, sem sæti ytra eftirliti. Ákvarðanir af þessum toga sæti jafnframt reglubundinni endurskoðun til að komast hjá því að þær ýti undir samþjöppun eða óeðlilegan ábata þeirra sem njóta opinbers stuðnings. Nefndin gerði þó ekki tillögu um að þessi leið yrði farin, þ.e. fjölmiðlanefndin.

Sameining sveitarfélaga leiðir til þess að þörf íbúa eykst fyrir staðbundna fjölmiðlun sem í senn veitir upplýsingar um verkefni stjórnvalda og er vettvangur opinberrar umræðu um málefni hvers sveitarfélags. Í lok greinargerðar kemur þó fram að nefndin eigi að skila skýrslu eigi síðar en 1. mars 2007 og eðlilega þyrfti að breyta þeirri dagsetningu.

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka það að umræður sem hafa orðið hér í áðurnefnd tvö skipti, þegar þessi tillaga hefur verið flutt, hafa verið mjög jákvæðar. Ég vil þakka þingmönnum fyrir það. Umsagnir, sem liggja fyrir, eru einnig jákvæðar. Ég ítreka þá von mína að við náum að afgreiða tillöguna á þessu þingi.