133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

staðbundnir fjölmiðlar.

17. mál
[16:37]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er lofsvert að velta fyrir sér staðbundnum fjölmiðlum. Ég held reyndar að fjölmiðill sé í eðli sínu staðbundinn. Það er vondur fjölmiðill sem ekki er staðbundinn. Það er spurning hins vegar við hvaða stað hann á. Sumir fjölmiðlar eiga við minnstu staði, m.a. þeir sem hér hefur verið rætt um. Aðrir eiga við sinn stað, sumir við heiminn allan en eru staðbundnir engu að síður.

Hér mun einkum átt við hina fyrrnefndu. Ekki ætla ég að vera á móti því að gerð sé úttekt á þessari stöðu. Ég sakna þess hins vegar að þessi tillaga skuli ekki beina þeirri úttekt í neina átt. Ég sé ekki hér í greinargerð eða í flutningsræðum að menn hafi bent á neina þá átt sem þessi úttekt á að fara í, hvernig hægt sé að rétta við stöðu hinna minnstu fjölmiðla á hinum minnstu stöðum, ef menn eru að tala um það.

Ég hef t.d. ekki miklar áhyggjur af fjölmiðlum á borð við skagafjordur.com eða fjölmiðlum Norðurslóðar og Dalvíkurblaðanna. Slíkur fjölmiðill er á netinu og hefur þess vegna rofið staðarböndin. Ég hef ekki miklar áhyggjur af útvörpum, sem menn eru hér að tala um, vegna þess að innan fárra ára verður komið hér stafrænt kerfi. Með reglunum um flutningsskyldu og flutningsrétt verður málum þannig fyrir komið að allar þær stöðvar eiga að heyrast um allt land. Má minnast furðulélegra viðtakna sem frumvarp mitt um það efni fékk hér í fyrra. En nú er komið annað frumvarp og hver veit nema þessi hluti þess verði að veruleika fyrr eða síðar, um flutningsrétt og flutningsskyldu. Við eigum þá eftir staðbundna fjölmiðla á pappír, þ.e. vikublöðin eða tímaritin sem koma út á ákveðnum stöðum. Það er rétt að minna á að þau koma ekki bara út á hinni svokölluðu landsbyggð heldur koma þau út í kaupstöðunum hér suðvestanlands. Í mínu kjördæmi, Reykjavík, koma út slík blöð. Vesturbæjarblaðið, Breiðholtsblaðið má nefna. Þegar menn líta á þá hluti þá njóta þau blöð þeirrar ívilnunar sem t.d. dagblöð njóta núna, að á þeim er mjög takmarkaður virðisaukaskattur af hinu lægra tagi þegar nýjar reglur um hann ganga í garð í næsta mánuði.

Erum við þá einkum að tala hér um dreifingu, forseti? Er það þannig? Þá kemur að því hvernig á að styðja þessi blöð í því skyni. Það verður auðvitað erfitt vegna þess að lítill munur getur verið á svokölluðum staðbundnum fjölmiðli og síðan fréttabréfum félaga og samtaka af ýmsu tagi. Eins og við öll vitum hefur starfsemi þeirra versnað að því leyti nú á síðasta áratug, vil ég segja, vegna hækkaðra dreifingargjalda. Þar hefur að vísu samgönguleiðin netið komið á móti. En ég hygg að það sé einkum þetta sem við erum þá að tala um.

Þá langar mig að vita hvort flutningsmönnum finnist það koma til greina að það séu sem sé beinar niðurgreiðslur sem ríkið sjái um á þennan hátt því ekki er lengur um það að ræða að ríkið geti boðið afslátt í gegnum fyrirtæki sitt. Það mundi verða stöðvað á samkeppnisforsendum.

Eða hvað annað eru menn að tala um í þessu ágæta dæmi þannig að einhverjar hugmyndir fylgi þá þessum vilja um úttekt á staðbundnum fjölmiðlum og rekstrarumhverfi þeirra?

Ég vil taka fram að ég deili áhuga og áhyggjum flutningsmanna af þessum miðlum sem margir eru hinir ágætustu og geta skapað ákveðinn kjarna og ákveðinn vettvang í sínu samfélagi.