133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

72. mál
[17:02]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hér er áhugavert frumvarp sem er vert að ræða mjög gaumgæfilega. Ég get tekið heils hugar undir að það eigi að hætta með þessi ábyrgðarmannakerfi á námslánin en síðan finnst mér þessi 30% afsláttur á námslánunum eitthvað sem við þurfum að ræða og fara í gegnum. (Gripið fram í: Eru frjálslyndir á móti því?) Frjálslyndir eru með því að lánasjóðnum verði tryggð framtíð og þess vegna er vert að spyrja sig: Hvað er mikill kostnaður við þennan 30% afslátt? Þegar komið er með tillögur sem munu eflaust skerða tekjur lánasjóðsins væri áhugavert að fá fram hversu mikið það kostar. Mér finnst það mjög áhugaverð spurning.

Hins vegar er annað sem blasir við. Ef við ætlum að tryggja jafnrétti til náms þarf að líta til þessara hækkuðu skólagjalda. Við verðum vitni að því að í háskólunum er jafnvel tekinn fjórðungur úr milljón fyrir önnina í skólagjöld, þá 500 þús. kr. á ári. Ég er á því að við ættum kannski fyrst að velta fyrir okkur hvort þessi hækkuðu skólagjöld séu ekki eitthvað sem yfirvöld menntamála eigi að sporna við áður en bornar eru upp tillögur sem mögulega geta kippt grundvellinum undan lánasjóðnum. Þess vegna væri fróðlegt að fá að heyra hvað þetta gæti kostað.

Við í Frjálslynda flokknum erum alls ekkert mótfallnir því að veittir séu styrkir. En áður en menn ræða í alvöru svona tillögur væri fróðlegt að fá að heyra um kostnaðinn við þessa styrkveitingu. Ef það á að veita styrki til náms er alveg spurning hvort þetta sé rétta leiðin eða hvort samfélagið eigi þá að veita ákveðna styrki til að efla vissa menntun í landinu, t.d. hvetja til iðnmenntunar ef við sjáum fram á að það þurfi að fjölga fólki í iðngreinum eða þá að veita styrki til tæknináms sérstaklega en kannski að sporna við þeirri þróun að þeir sem hyggja á nám í tæknigreinum þurfi nú skyndilega að greiða há skólagjöld sem þeir þurftu ekki fyrir örfáum árum. Það er rétt að fara í gegnum það hvernig þessi mál eru að þróast og hvort þessar reglur og sú þróun sem hefur verið á undanfönum árum hafi í rauninni verið jákvæð.

Ég er ekkert viss um að þessi háu skólagjöld upp á 250 þús. kr. á önnina séu eftirsóknarverð leið. Þetta skapar önnur vandamál, þ.e. að þeir skólar sem er ekki heimilt að leggja á þessi skólagjöld telja sig að einhverju leyti dragast aftur úr í samkeppninni við þá sem geta lagt á skólagjöld. Þetta mál þarf vissulega að ræða og fara rækilega í gegnum, sérstaklega vegna þess að innan úr Samfylkingunni hafa heyrst raddir sem vilja jafnvel opna á skólagjöld. Þá er spurningin hvort ekki sé rétt að halda aftur af þeim í stað þess að koma með nýja jöfnun í styrkveitingum sem er erfitt að átta sig á hvort í rauninni verði til góðs þegar fram í sækir.

Ég vil endilega taka undir 2. gr. frumvarpsins sem fjallar um að taka á ábyrgðarmannakerfinu sem mér finnst að í rauninni ætti að vera horfið fyrir nokkru.