133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

72. mál
[17:10]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ef við höfum trú á að menntun verði þjóðfélaginu til góðs er ég þeirrar skoðunar að við eigum ekki að leggja stein í götu þeirra sem ætla að sækja sér menntun. Það sem kom fram hér í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar er að fólk geti þá sótt sér menntun utan hins hefðbundna skólakerfis, þ.e. í umræddum einkaskólum.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn brugðust vegna þess að þeir settu tækninám inn í einkaskóla þannig að ef fólk ætlar að læra tæknigreinar verður það að fara í einkaskóla og greiða jafnvel há skólagjöld. Það er þróun sem er rétt að sporna við og ræða.

Hvað varðar það hvernig við styrkjum þessa skóla er rétt að skoða það að hluti af námsláninu er styrkur. Námslánið greiðist ekki upp með fullum kostnaði þannig að lánasjóðurinn þarf eflaust að fjármagna sig með einhverjum lánum en endurlána síðan vaxtalaust. Það er hægt að líta á þetta kerfi sem ákveðinn kostnað og ég verð að segja að mér finnst þetta stórfurðuleg þróun eða afturför, þ.e. að leggja á há skólagjöld í skólum og síðan þurfa nemar að fjármagna þau með lánum sem eru síðan aftur styrkur frá ríkinu.

Ég hefði talið hreinlegast, frú forseti, að þessum skólum væri bara gert kleift að haga starfsemi sinni án þess að þurfa að seilast djúpt í vasa nemenda, sérstaklega þeirra sem ætla að sækja sér menntun í tæknigreinum. Þá hefði ég talið að þjóðfélag sem ætlar að stefna fram á við í menntasókn ætti einmitt að greiða leið fyrir ungt fólk í þessa menntun, frú forseti.