133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

72. mál
[17:16]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, með síðari breytingum, sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson er 1. flutningsmaður að. Ég vil í byrjun fagna því að við ræðum um þennan mikilvæga sjóð, Lánasjóð íslenskra námsmanna. Eflaust hefði umræða um hann átt erindi fyrr í vetur vegna þess að eins og komið hefur fram í umræðunni gegnir hann mikilvægu hlutverki í menntakerfi okkar með því að hann tryggir jafnrétti til náms sem okkur öllum er hugleikið. Ég held að eins og hv. þm. Dagný Jónsdóttir kom inn á hafi okkur tekist að halda þverpólitískri samstöðu um meginmarkmið með rekstri sjóðsins þótt auðvitað sé alltaf áherslumunur á stefnu flokkanna.

Mér finnst þetta athyglisvert frumvarp. Mig langar að gera örstutt grein fyrir þeirri skoðun minni að ég get tekið undir nokkuð af því sem hér kemur fram. Í aðdraganda síðustu kosninga 2003 ræddu ungir framsóknarmenn mikið um Lánasjóð íslenskra námsmanna, enda er það eitt brýnasta hagsmunamál stúdenta og ungs fólks í námi. Í málefnaundirbúningi þeirra fyrir flokksþingið sem markaði stefnu okkar framsóknarmanna í menntamálum fyrir síðustu alþingiskosningar var m.a. að skoða ætti sérstaklega Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þar stóðu tvö atriði upp úr, annars vegar að lækka endurgreiðslubyrði námsmanna og koma henni niður í 3,75% , eins og hún var áður en Viðeyjarstjórnin margfræga breytti því hlutfalli. Okkur hefur aftur tekist að ná hlutfallinu aftur í 3,75% á þessu kjörtímabili. En hitt atriðið laut að því sem kemur fram í þessu frumvarpi, þ.e. að setja meiri hvata í kerfið, þ.e. að hafa þann hvata í kerfinu að ljúki menn námi á tilskildum tíma breytist hluti af lánum þess í styrk. Útfærslan var ekki nákvæm fyrir að öðru leyti en því að þar var rætt um 25–30% hlutfall.

Í viðræðum stjórnarflokkanna sem nú mynda ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, varð niðurstaðan sú að inn í stjórnarsáttmálann rataði ákvæðið sem sneri að því að lækka endurgreiðslubyrði námslánanna. Okkur hefur tekist að koma því í framkvæmd á þessu kjörtímabili. En síðarnefnda atriðið stóð utan sáttmálans. Ég hef síðan þá, ásamt fleiri framsóknarmönnum, þar á meðal hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur, haldið þessu á lofti. Við verðum klárlega að stefna að þessu og þess vegna er umræðan í dag góð og þetta frumkvæði hv. þm Björgvins G. Sigurðssonar.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson ræddi þetta áðan, m.a. í andsvörum. En eins og staðan er í dag, ef við skoðum viðskiptavini eða lánþega Lánasjóðs íslenskra námsmanna, þá er kerfið þannig að við styrkjum þá mest sem fara í lengsta námið, sem njóta lána í lengstan tíma. Þeir sem taka BS- eða BA-námið, fara síðan í masterinn og jafnvel í doktorinn. Ef staðan er skoðuð, þá greiðir ríki þeirra nám mest niður hlutfallslega. Þess vegna er ekki óeðlilegt að skoða hvernig megi breyta þeirri forgangsröð. Meginhópurinn er fólk sem fer einungis í BA- eða BS-nám þótt það sé alltaf að breytast með hækkandi menntunarstigi þjóðarinnar. Við þurfum auðvitað á því að halda en þessi hópur greiðir hraðast upp lán sín og hann greiðir þau nánast öll til baka. Þess vegna finnast mér rök fyrir því að skoða þetta sérstaklega.

Annað sem mér finnst mikilvægt í umræðum um lánasjóðinn er framfærslugrunnurinn sjálfur, upphæðirnar sem lánin byggjast á. Reynsla mín af í stúdentapólitíkinni, líkt og annarra hv. þingmanna sem hér hafa tekið til máls er auðvitað sú að það er eilífðarbarátta að finna út hve há lánin eiga að vera. Þess vegna er það gleðiefni að nú hafi stjórn LÍN sett af stað vinnu sem miðar að því að skoða framfærslugrunninn. Eins og við vitum byggir hann enn á grunni sem reiknaður var út árið 1995. Síðan voru tekin 80% af þeim grunni og við það skyldu námslánin miðast, þetta hefur síðan uppfærst ár frá ári eftir því hvernig hefur samist milli fulltrúa stúdenta og meiri hlutans í stjórn LÍN. Þetta er afar mikilvægt atriði. Ég vil halda því til haga. Þingið verður að fylgjast með framvindu þessa máls en sjóðurinn er byrjaður að skoða sérstaklega hver grunnurinn er sem ég held að sé mjög brýnt mál.

Ég vildi ljúka máli mínu með því að nefna að auðvitað er brýnt að við höldum Lánasjóði íslenskra námsmanna, rekstri hans og tilvist, til haga. Áfram þarf að gera sjóðnum kleift að stuðla að þessu mikilvæga jafnrétti til náms sem við viljum hafa og framsóknarmenn hafa reynt að standa vörð um. Það er auðvitað þannig að háskólaumhverfið hefur breyst ótrúlega á síðustu 5–10 árum þrátt fyrir þau orð sem hv. þm. Sigurjón Þórðarson lét falla í ræðu sinni á undan mér. Hann talaði um að verið væri að minnka fjölbreytnina í náminu. Það getur átt við um það mál sem hann nefndi, um fiskvinnsluskóla og ég verð að játa að ég þekki það því miður ekki nógu vel. En ég vil benda á að við höfum mun fjölbreyttara nám í boði, tekið upp nýja háskóla eins og við þekkjum svo vel, Háskólann á Akureyri og Háskólann á Bifröst. Það hefur orðið háskólabylting á undanförnum árum sem er gleðilegt.

Nemum hefur fjölgað svo á háskólastiginu að það jafnast eflaust á við heimsmet. Ég hef reyndar lagt fyrirspurn, sem ég er ekki búin að fá svar við, til hæstv. menntamálaráðherra til að fá betri yfirsýn yfir þróunina á háskólastiginu undanfarin 5–10 ár. Ég bíð eftir að fá svar við henni en eins og við vitum öll sem fylgst höfum með þessari þróun hefur orðið gerbylting þar á. Við eigum auðvitað áfram að stuðla að menntasókn okkar. Hún á ekki einungis að vera á háskólastiginu heldur og á framhaldsskólastiginu og í verk- og tæknimenntun, og á framhaldsskólastiginu og háskólastiginu. Ég held að við hv. þingmenn getum sammælst um að sækja þurfi lengra fram á þeim vettvangi.