133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

72. mál
[17:27]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég lagði einfalda spurningu fyrir hv. þm. Sæunni Stefánsdóttur og hún kaus að svara út og suður. Það er náttúrlega miður. En hið rétta í málinu er að lagt hefur verið niður nám sem ekki er hægt að sækja á vegum ríkisins og flytja inn í einkarekna háskóla. Þar með hefur Framsóknarflokkurinn ákveðið að leggja stein í götu þeirra sem hyggjast leggja stund á tækninám.

Það er líka rétt að rifja upp fyrir hv. þingmanni að hún fór í gegnum það að þeir sem færu í lengra nám fengju aukinn styrk í gegnum lánasjóðinn frá ríkinu. Hún nefndi það í fyrri ræðu sinni. En það má þá líka segja að þeir sem þurfa að greiða hærri skólagjöld fái hærri styrk í gegnum lánasjóðinn. Ég hef velt því fyrir mér hvort þetta sé í raun stefna Framsóknarflokksins, þ.e. að styrkja þessa einkareknu skóla umfram ríkisreknu háskólana með því að fara í ríkissjóð með viðkomu í vasa nemenda. Það virðist raunin ef marka má ræðu hv. þingmanns.

En það kemur mér svo sem ekki á óvart að framsóknarmenn kynni sér lítið eða forðist umræðu um fiskvinnslunám. Það er eins og það megi ekki ræða sjávarútvegsmál, þá sést undir iljar þingmanna Framsóknarflokksins og þeir hafa ekki kynnt sér þetta. Þetta kemur þeim ekkert við, virðist vera. En þetta skiptir miklu máli fyrir þjóðarhag. Rúmur helmingur af vöruútflutningi landsmanna kemur úr þessari grein og forráðamenn sjávarútvegsins hafa lýst yfir áhyggjum af stöðu mála en þær áhyggjur virðast ekki vera hjá framsóknarmönnum. Áhyggjur framsóknarmanna eru af því að þurfa að ræða sjávarútvegsmál. Það finnst þeim vont.