133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

72. mál
[17:31]
Hlusta

Flm. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þá fjörugu umræðu sem hefur átt sér stað í sölum Alþingis um menntamál og um háskólastigið. Lánasjóður íslenskra námsmanna stendur náttúrlega á bak við alla háskólamenntun þannig að það er eðlilegt og gott að í framhaldi af því komi upp umræður um ýmis álitaefni á háskólastiginu.

Fram fóru harkalegar umræður í þinginu fyrir tveimur árum þegar tekin var ákvörðun um að leggja niður Tækniháskóla Íslands og fella saman við Háskólann í Reykjavík. Gagnrýni okkar í Samfylkingunni byggðist einkum á því að þar með yrði tæknimenntun á háskólastigi ekki aðgengileg nema í gegnum einkarekinn háskóla með greiðslu skólagjalda. Ég held að það hefði verið farsælla skref að byggja upp tækninám í Háskóla Íslands þannig að þar væri einnig gjaldfrjáls menntaleið, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson kallaði það, í tækninámi eins og öðru. Það er ákveðin hindrun að nám sé einungis til staðar í einkareknum háskóla gegn greiðslu skólagjalda. Ég tel að öll flóra grunnnámsins eigi að vera til staðar í opinberum háskólum. En svo er það að sjálfsögðu jákvæð viðbót og hið besta mál þegar einkareknir háskólar auka námsframboð.

Það er hins vegar þekkt að sett sé ákveðið þak á skólagjaldaheimildir. Í Bretlandi er sett þak á slíkar heimildir, þ.e. þrjú þúsund pund á ári. Í því eru farnar ýmsar leiðir en sérstaklega af því að það er ekki þak á því hvað lánasjóðurinn lánar mikið fyrir skólagjöldum og helmingur af lánum lánasjóðsins er einhvers konar niðurgreiðsla nú þegar. Því væri ekki óeðlilegt að setja eitthvert þak á skólagjaldaheimildir hinna einkareknu háskóla með tilliti til þess.

Ég er viss um að það væri jákvætt að stíga skref í átt að auknum námsstyrkjum. Það á að sjálfsögðu einnig við um verk-, iðn- og listnám. Lánasjóðurinn er ekki bara að lána fyrir háskólamenntun, hann lánar einnig fyrir verknámi eftir grunndeild. Styrkirnir væru námshvati og til að efla það nám ekki síður en háskólanámið og ég tek undir með hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni með að við þurfum sérstaklega að efla iðnnám og tækninám. Ég hef nokkrum sinnum flutt um það tillögur á þinginu, um átak til að efla verk- og listnám í framhaldsskólunum. Ég held að það sé kannski eitt mikilvægasta verkefni menntakerfisins í dag. Mestu skiptir að vinna í þessu.

Ég lét meta það í fyrra eða hittiðfyrra hver kostnaðurinn af þessum breytingum yrði. Ég mun að sjálfsögðu kalla eftir slíkum upplýsingum aftur frá Lánasjóði íslenskra námsmanna í umsagnaferlinu, þ.e. hvert sé áætlað kostnaðarmat í dag við að 30% lána breytist í styrk. Það er ótrúlega lítill kostnaður á bak við það af því að í dag niðurgreiðum við mest fyrir þá sem lengst eru í námi, ef svo má segja. Það eru því margir þættir sem gera það að verkum að það sparast mikið um leið og þetta kostar peninga. Þetta er hins vegar besta fjárfestingin, þ.e. í bættri og aukinni menntun. Þess vegna leggjum við til að sú grundvallarbreyting verði gerð á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna að 30% af upphæð námsláns verði styrkur ljúki námsmaður lokaprófum á tilskildum tíma og auk þess verði ekki krafist ábyrgðarmanna á námsláni. Þá yrðu námslán greidd út fyrir fram eða samhliða en ekki eftir á.

Ég þakka þá jákvæðu og skemmtilegu umræðu sem fram hefur farið í dag um háskólastigið. Við þurfum að leiða þar margt til lykta. Vaknað hafa áleitnar spurningar um margt sem þessu tengist og það er jákvætt og gott. Ég þakka fyrir undirtektirnar og það er gott að heyra að vilji er fyrir því að skoða þessa leið í mörgum flokkum. Ég fagna því að sjálfsögðu og við sjáum hvernig málinu reiðir af í menntamálanefnd.