133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

náms- og starfsráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum.

42. mál
[17:37]
Hlusta

Flm. (Dagný Jónsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um eflingu náms- og starfsráðgjafar í grunn- og framhaldsskólum. Ásamt mér eru flutningsmenn hv. þingmenn Sæunn Stefánsdóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Katrín Júlíusdóttir og Kolbrún Halldórsdóttir.

Tillagan hljóðar svo, virðulegi forseti:

„Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa nefnd sem kanni gildi þess og gagn að auka náms- og starfsráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum, sem úrræðis gegn brottfalli nemenda í framhaldsskólum og fyrir farsælt náms- og starfsval. Nefndin kanni sérstaklega ástæður þess að svo stór hluti nemenda velur bóknám að loknum grunnskóla, hver séu áhrif foreldra og kennara á náms- eða starfsval og hvaða hugmyndir grunnskólanemendur hafi um framhaldsnám og störf að námi loknu. Jafnframt geri nefndin samanburð á náms- og starfsráðgjöf í helstu nágrannalöndum, svo og árangri ráðgjafar og annarra úrræða gegn brottfalli.

Ráðherra skili Alþingi skýrslu um niðurstöður nefndarinnar, þar á meðal tillögum um aukna náms- og starfsráðgjöf og fyrirkomulag hennar ef niðurstöður hníga í þá átt, fyrir 15. nóvember 2007.“

Hæstv. umhverfisráðherra Jónína Bjartmarz hefur tvisvar áður flutt þetta mál. Ég tók við af henni og ætla að halda því á lofti enda um mjög mikilvægt mál að ræða. Í greinargerðinni er farið nánar yfir efnisatriði varðandi þetta mál. Útgangspunkturinn er sá að brottfall nemenda úr framhaldsskólum á Íslandi er vandamál. Það er allt of mikið. Hér er farið yfir rannsóknir og stöðuna í löndunum í kringum okkur. Í niðurstöðunni segir að í allri umræðu hér á landi um mikið brottfall sé ástæða til að gefa gaum að aðferðum í náms- og starfsráðgjöf sem beinist að því:

„… að vísa veginn um flókið upplýsingaumhverfi öllum þeim sem eru núverandi eða væntanlegir þátttakendur í skólakerfi og/eða atvinnulífi. Ljóst er að brottfall nemenda og skortur á úrræðum fyrir þann hóp sem hættir námi kostar einstaklingana mikið persónulega, fjárhagslega og félagslega, auk þess sem það hefur í för með sér kostnað fyrir skólakerfið og þjóðfélagið allt. Skilvirkar leiðir í náms- og starfsráðgjöf eru ein af forsendum þess að fólk geti eflt færni sína til að stunda nám og starf farsællega. Ljóst er að náms- og starfsráðgjöf á grunn- og framhaldsskólastigi þarf að efla á Íslandi.“

Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur farið fram tvisvar áður og málið hefur ekki náð fram að ganga. Það er endurflutt í þriðja skipti óbreytt. Það er von mín að það verði afgreitt sem þingsályktun frá Alþingi.