133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

náms- og starfsráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum.

42. mál
[17:40]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Frú forseti. Við ræðum um tillögu til þingsályktunar um eflingu náms- og starfsráðgjafar í grunn- og framhaldsskólum. Fyrsti flutningsmaður tillögunnar, hv. þm. Dagný Jónsdóttir, gerði grein fyrir henni en ég vildi fyrst og fremst árétta og ítreka að ég vona að þingsályktunartillagan nái fram að ganga, fái þinglega meðferð og afgreiðslu. Þetta er sannarlega viðfangsefni og vandamál sem við verðum að takast á við, þ.e. brottfall úr framhaldsskólum. Ýmislegt hefur verið unnið á þessum vettvangi en ég held að þessi þingsályktunartillaga og sú nefnd sem hér er lögð til ætti að kanna sérstaklega gildi og gagn þess að auka náms- og starfsráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum sem úrræðis gegn brottfalli nemenda í grunn- og framhaldsskólum og fyrir farsælt náms- og starfsval, eins og það er orðað í þingsályktunartillögunni. Þetta er úrræði sem hefur sannað sig. Í dag má finna víða í menntakerfinu náms- og starfsráðgjafa sem vinna þarft og gott starf en kallað hefur verið eftir því að þeir fái skýrari lagaramma og grundvöll víðar í kerfinu. Ég held að slík nefnd gæti lagt heilmikið af mörkum.

Það er verðugt verkefni að minnka brottfall úr framhaldsskólunum. Það var merkilegt sem fram kom í vinnu nefndar sem skipuð var af hæstv. menntamálaráðherra fyrir tveimur árum, sem kom með tillögur um verk- og tækninámið, að margir velja bóknámið en enda síðar í verk- og tæknináminu. Það sýnir að þar hefði náms- og starfsráðgjöf getað breytt einhverju. Menn gætu kannski fyrr fundið sinn stað í menntakerfinu þar sem þeir fá notið sín og nýta reynslu sína til að þroskast og þróast í skólanum og menntun.

Ég vona eins og ég sagði, frú forseti, að þessi tillaga nái fram að ganga. Ég held að hér sé sannarlega um þarft og brýnt mál að ræða.