133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

náms- og starfsráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum.

42. mál
[17:52]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar rétt aðeins að koma og lýsa ánægju minni með þetta frumvarp sem hér liggur fyrir um eflingu náms- og starfsráðgjafar í grunn- og framhaldsskólum.

Ég tel reyndar að það sé alveg sérstaklega mikilvægt að efla náms- og starfsráðgjöf í grunnskólunum. Því ég held að nemendur á því stigi séu oft að velja sér leið á framhaldsskólastigi án þess að vita í rauninni hvað þeir eru að velja og hverju þeir eru að hafna.

Ég held að við eigum ekkert endilega að vera að horfa á þetta úrræði sem úrræði gegn brottfalli, þó að það sé vissulega mjög mikilvægt heldur er þetta mjög mikilvægt fyrir heill persónunnar sjálfrar sem í hlut á, að hún komist á þá braut sem henni hentar best og raunverulegur áhugi hennar og hæfni liggur.

Nú er það svo að ýmsir framhaldsskólar og grunnskólar sem nálægt þeim liggja hafa tekið upp samstarf sín á milli um að kynna ýmsar greinar verknáms sem valfag. Þannig geta nemendur í grunnskólum sótt tíma í framhaldsskólunum í ýmsum verknámsgreinum, fengið leiðsögn og unnið við alvöruhluti. Þar sem ég þekki til hefur þetta reynst ákaflega vel. Þetta hefur orðið til þess að nemendum á verknámsstigi hefur fjölgað ár frá ári og reyndar líka orðið til þess að nemendur sem grunnskólinn hefur ekki haft miklar væntingar til sem námsmanna hafa komið út sem afburðafagmenn á sínu sviði.

Það er auðvitað enginn sem getur sagt til um það hvort viðkomandi einstaklingur hefði ratað inn á rétta braut ef hann hefði ekki fengið þessa kynningu sem þarna á í hlut. En líkurnar á því að viðkomandi einstaklingur rati á rétta braut aukast auðvitað með því að hann fái kynningu. Mér finnst þetta því ákaflega jákvætt mál. Þar að auki er það þjóðhagslega hagkvæmt fyrir okkur að kynna sem best iðn- og verknám fyrir nemendum á grunnskóla- og framhaldsskólastigi vegna þess að það vantar stöðugt í samfélag okkar menn og konur í þær starfsgreinar.

Ég held að einn þáttur þessa máls gæti líka verið sá að stúlkur/konur færu meira í verknám og kannski ekki alveg þessa hefðbundnu skiptingu sem við höfum séð og sjáum enn í dag, ef þær fengju kynningu og raunverulega lýsingu og sýn á það hvað í þessu námi og í starfsgreinum felst.

En því miður er það þannig að val kynjanna á námsgreinum er mjög hefðbundið enn þá. Stúlkur velja t.d. í mjög litlum mæli rafvirkjun, sem hentar þó að miklu leyti mjög vel fyrir konur. Margt sem rafvirkjar eiga að gera er fínleg vinna, vel launuð og allt það. Þannig að ég held að þetta sé á allan hátt hið besta mál og lýsi stuðningi mínum við það.