133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

samkomulag við Færeyjar og Grænland um skipti á ræðismönnum.

69. mál
[18:13]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er aldeilis ágætt fyrir okkur að samþykkja þá þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu þegar búið er að ákveða að framkvæma í það minnsta helminginn af því sem hún fjallar um, þ.e. að opna ræðismannsskrifstofu í Færeyjum og á Grænlandi.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Halldór Blöndal sagði áðan úr þessum ræðustóli að samstarf, samvinna og vinátta á milli þessara þriggja þjóða er mikil um langa hríð og sameiginlegir hagsmunir okkar eru líka mjög ríkir. Við búum, þessar þrjár þjóðir, við Norður-Atlantshafið, eigum sameiginlega fiskstofna og höfum mikilla hagsmuna að gæta í þeim efnum. Við höfum mikla hagsmuni af því að umhverfismálum í heimshluta okkar sé vel sinnt og um þetta allt saman hefur Vestnorræna ráðið reyndar ítrekað ályktað og haldið ráðstefnur um.

Margir Grænlendingar búa í Færeyjum, nokkrir Íslendingar á Grænlandi og enn fleiri í Færeyjum og Færeyingar búa margir á Grænlandi og Íslandi. Tengslin á milli Grænlands og Íslands eru afar löng eins og við vitum. Ræðismannsskrifstofa í þessum löndum tveim styrkir auðvitað stöðu þeirra landa í hinum löndunum en það auðveldar líka samstarf á öðrum sviðum, t.d. ferðamennsku, sem verður fjallað um á eftir í annarri tillögu og svona getur maður haldið áfram að telja upp. Það er best að vera ekki að tala mikið um ferðamálin úr því að þau koma til umræðu á eftir.

En ég vona að þetta gangi glatt í gegn, frú forseti, og er allt saman hið jákvæðasta mál.