133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

samvinna vestnorrænna landa í baráttunni gegn reykingum.

77. mál
[18:16]
Hlusta

Flm. (Halldór Blöndal) (S):

Frú forseti. Þessi þingsályktunartillaga er flutt af okkur alþingismönnum sem eigum sæti í Vestnorræna ráðinu, sem eru ásamt mér hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir, Hjálmar Árnason, Sigurrós Þorgrímsdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir og Sigurjón Þórðarson. Þessi tillaga er flutt á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins frá í sumar, svohljóðandi:

Vestnorræna ráðið skorar á ríkisstjórnir Íslands, Færeyja og Grænlands að auka og efla samvinnu og upplýsingamiðlun í baráttunni gegn reykingum. Skorað er á löndin að halda námsstefnu eða ráðstefnu fyrir vestnorrænar heilbrigðisstéttir um málið.

Eins og við vitum eru reykingar eitt erfiðasta heilsuvandamál sem nú er við að kljást á Norðurlöndum og einnig á Vestur-Norðurlöndum. Eins og kunnugt er valda reykingar mörgum sjúkdómum og leiða í versta falli til ótímabærs dauða. Á Vesturlöndum er eining um að brýna nauðsyn beri til að berjast gegn reykingum og til að ná því fram má m.a. koma í veg fyrir að ungmenni byrji að reykja og reyna að fá fólk sem þegar reykir til að hætta. Það tekst aðeins með markvissum aðgerðum. Takist að draga úr fjölda þeirra sem reykja mun draga úr sjúkdómum sem tengjast reykingum, langlífi verður meira og heilsa betri. Við bætist efnahagslegur ávinningur, bæði fyrir Vestur-Norðurlönd og vestnorræn heimili. Það verður efnahagslegur ávinningur fyrir löndin að færri hafa þörf fyrir meðferð vegna sjúkdóma sem tengjast reykingum og sparnaður fyrir heimilin er að sjálfsögðu mjög verulegur ef menn hætta að reykja eins og margsinnis hefur verið sýnt fram á með mjög táknrænum hætti.

Vestur-Norðurlönd hafa lengi haft hefð fyrir góðri og víðtækri samvinnu. Við leggjum áherslu á að löndin sameinist í þessari baráttu og miðli hvert öðru reynslu sinni og baráttuaðferðum. Eins og ég sagði áður eru reykingar mikið vandamál í þessum löndum þremur, Færeyjum, Íslandi og Grænlandi. Á heilbrigðisráðstefnu Vestnorræna ráðsins árið 2003 kom fram að reykingar eru eitt mesta heilsuvandamálið á Grænlandi. Þær eru og of útbreiddar í Færeyjum og á Íslandi.

Hér hefur tekist á síðustu 20 árum að draga nokkuð úr reykingum. Árið 1985 reyktu 40% Íslendinga á aldrinum 18–69 ára, en árið 2005 var hlutfallið komið niður í 21% sem er verulegur ávinningur. Beitt hefur verið upplýsingaherferð um reykingar og afleiðingar þeirra þar sem fléttað hefur verið saman jákvæðum reyklausum fyrirmyndum og vítum til varnaðar auk þess sem reykingar hafa verið bannaðar á mörgum opinberum stöðum, t.d. í öllum opinberum byggingum. Vestnorræna ráðið skorar á heilbrigðisráðherra Vestur-Norðurlanda að auka og efla samstarf sitt í baráttunni gegn reykingum, bæði með því að skiptast á upplýsingum og miðla af reynslu sinni. Ráðið hvetur til þess að gerð verði grein fyrir því hvaða aðferðir hafi skilað bestum árangri í baráttunni gegn reykingum, enn fremur til þess að löndin þrjú haldi námstefnu eða ráðstefnu með fólki úr heilbrigðisstéttum sem vinnur við varnir gegn reykingum þar sem það deilir með sér reynslu, læri hvert af annars baráttuaðferðum og miðli upplýsingum.

Frú forseti. Ég legg til að þessari tillögu verði vísað til utanríkismálanefndar.