133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

samvinna vestnorrænna landa í baráttunni gegn reykingum.

77. mál
[18:20]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Sú ráðstefna sem vitnað er til í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu var fyrsti fundurinn sem ég sótti sem fulltrúi Íslands í Vestnorræna ráðinu og var haldinn í Illullisat og fjallaði um heilbrigðismál í hinum vestnorrænu löndum. Þar kom fram að á Grænlandi reyktu 80% 14 ára og eldri og að reykingar væru stærsta heilsufarsvandamálið þar. Við vitum að reykingar eru mjög útbreiddar líka í Færeyjum. Ég man ekki hve hátt hlutfall þar reykti, gott ef það var ekki eitthvað um 50%.

Það er alkunna að á Íslandi hefur náðst mjög mikill og góður árangur í reykingavörnum og mér finnst alveg einhlítt að þegar við búum yfir góðri reynslu og þekkingu reynum við að miðla henni til nágranna okkar. Við eigum samt eitthvað í land því að enn þá reykir 21% af 18–69 ára á Íslandi. Við svo sem sjáum að þegar slakað er á áróðrinum gegn reykingum er tilhneiging til þess að reykingar aukist. Við þurfum auðvitað að vera vel á verði og halda áfram áróðri og fræðslu gegn reykingum.

Mér er það mjög minnisstætt þegar heilbrigðisstéttirnar lýstu öllum sjúkdómunum á Grænlandi sem mátti rekja beint til reykinga þannig að eiginlega er þessi ráðstefna sem haldin var í Illullisat uppsprettan að því að þessi tillaga er komin fram. Þannig á það auðvitað að vera, ef við verðum þess áskynja að við getum hjálpast að við að bæta úr einhverjum þætti í löndunum okkar nýtum við okkur þá þekkingu og dreifum henni. Ég vona að þessi tillaga fái góðar viðtökur í utanríkismálanefnd. Þetta er samstarf sem ætti ekki að vera mjög kostnaðarsamt. Þetta er spurning um kennslu í aðferðafræði og miðlun þekkingar í því hvernig fólk ber sig að hér og í hinum löndunum.