133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

samkeppnisstaða Vestmannaeyja og landsbyggðarinnar.

[13:52]
Hlusta

Guðjón Hjörleifsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni fyrir að hefja þessa umræðu. Þegar rætt er um samkeppnishæfi Vestmannaeyja og landsbyggðar er ljóst að landfræðileg sérstaða Eyjanna hefur mikil áhrif, þar með talið á samgöngur.

Bættar samgöngur eru stærsta hagsmunamál landsbyggðarinnar. Stærsta vandamál Eyjamanna í dag er að þjóðvegurinn okkar, Herjólfur, annar ekki eftirspurn með flutning á bifreiðum og vörugámum yfir sumartímann. Við þessu þarf að bregðast strax.

Við þekkjum það sem búum í eyjasamfélagi að það kostar sitt að búa þar. Það þarf að endurskoða gjaldskrármál farþega svo og vöruflutninga en ljóst er að smáiðnaður þrífst ekki í Eyjum vegna mikils flutningskostnaðar. Stjórnin þarf að marka samræmda stefnu í fargjaldamálum þeirra sem hafa ekki þann valkost að komast akandi frá heimabæ sínum.

Við Eyjamenn fögnum líka og þökkum fyrir það sem vel hefur verið gert. Aldrei hefur verið gert eins mikið í samgöngumálum og á þessu kjörtímabili. Má þar nefna tvær ferðir Herjólfs daglega, niðurgreiðslur á áætlunarflugi þar sem Flugfélag Íslands hefur sinnt okkur af stakri prýði sem og nýja flugstöð á Bakka með nýjum og stærri bílastæðum og stærra flugplani svo og klæðningu Bakkavegar.

Í fjögurra ára samgönguáætlun er gert ráð fyrir 4,9 milljörðum í uppbyggingu ferjulægis í Bakkafjöru með tengdum mannvirkjum ásamt uppgræðslu og vegtengingu á nýju skipi sem tekur 250 farþega og 45–50 bíla.

Í lok mars mun liggja fyrir lokaúttekt á valkostum Bakkafjöru. Það þarf samt að taka tillit til þess að ef eitthvað nýtt kemur upp varðandi jarðgangagerð þarf að skoða það sérstaklega. Það stendur til að bjóða út flugleiðina Reykjavík/Vestmannaeyjar og er það enn ein styrking við samfélag okkar.

Vaxtarsamningur Vestmannaeyja hefur nú verið undirritaður. Hugmyndafræðin á bak við hann felur í sér nýja nálgun til að efla atvinnulífið. Þessi nýja aðferð er öðrum fremur fólgin í klasauppbyggingu þar sem sameining stjórnana fyrirtækja og einstaklinga er styrkt og efld.

Stækkandi floti Eyjamanna, nýsmíði þriggja skipa í Póllandi og ný skipakoma til Eyja, sýna mikinn stórhug og það er ljóst að Eyjamenn ætla að áfram að tryggja það að Vestmannaeyjar verði stærsta verstöð landsins.

Virðulegi forseti. Hvar liggur mismununin í samkeppnishæfi? Númer eitt er að auka flutningsgetu sjóleiðina yfir sumartímann og númer tvö að endurskoða gjaldskrármál. Þetta eru forgangsmálin í dag.