133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

samkeppnisstaða Vestmannaeyja og landsbyggðarinnar.

[13:57]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Meginhlutverk okkar sem stjórnmálamanna er að tryggja sambærileg búsetuskilyrði um Ísland allt, skapa fólkinu jöfn tækifæri til búsetu. Til að gera Vestmannaeyjar sem við ræðum hér um í dag að samkeppnishæfum búsetukosti fyrir ungt fólk þarf ýmislegt að laga. Eins og hv. flutningsmaður, upphafsmaður umræðunnar hér í dag, benti á hefur íbúum í Vestmannaeyjum fækkað um 1 þús. manns á 10 árum. Það má kalla það nánast byggðahrun þegar 1 þús. manns af 5 þús. flytja í burtu og við verðum að grípa til bráðra aðgerða til að finna framtíðarlausn í samgöngumálum á milli lands og Vestmannaeyja.

Einungis með róttækum samgöngubótum milli lands og Eyja gerum við Vestmannaeyjar að samkeppnishæfum búsetukosti fyrir ungt fólk í dag. Þar koma fjórir kostir fyrst og fremst til greina. Það er nýr Herjólfur strax sem slær á bráðasta vandann, stórlækkun á ferjugjaldinu sem gerir það sambærilegt við að aka bíl um aðra þjóðvegi landsins, höfn í Bakkafjöru og göng á milli lands og Eyja.

Ný samgönguáætlun leit dagsins ljós í vikunni og verður rædd hér á fimmtudaginn. Þar er gert ráð fyrir 5 milljarða framkvæmd í Bakkafjöru sem framtíðarlausn á samgöngumálum milli lands og Eyja. Þá hlýtur að þurfa að spyrja hæstv. ráðherra byggðamála þessarar spurningar: Þýðir það að gangakosturinn sé úr sögunni? Enn hefur ekki verið farið í þær rannsóknir sem útiloka göng á milli lands og Eyja eða leiða til lykta hvaða leið skuli farin.

Að mínu mati á ekki að ákveða höfnina í Bakkafjöru fyrr en hitt hefur verið rannsakað til hlítar. Þess vegna hlýtur hæstv. byggðamálaráðherra að þurfa að svara skýrt hér í dag með hæstv. samgönguráðherra sér við hlið þessari spurningu: Eru þetta endalok gangahugmyndanna? Er ekki vitlegra að ráðast í rannsóknir á möguleikum gangagerðar áður en tekin er ákvörðun um byggingu hafnar í Bakkafjöru? Þetta er framtíðarlausn og til baka verður ekki snúið úr því (Forseti hringir.) þegar sú framkvæmd er hafin.