133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[14:36]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins örstutt. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að vinna áfram að því að þroska markað á sviði orkumála og reyna að vinna að því að hér verði bær fyrirtæki sem starfi á þeim markaði.

Við teljum að það sé fullnægjandi eftirlit stjórnsýslunnar, umhverfisráðuneytisins, Skipulagsstofnunar og Umhverfisstofnunar og það sé mjög eðlilegt og æskilegt að nærsamfélögin, sveitarfélögin, hafi aðkomu að þessum málum. Við vitum að miklar umræður eru í Hafnarfirði og á Suðurlandi. Í raun og veru er það mjög ánægjulegt og æskilegt að upplýstar umræður séu einmitt í nærsamfélögunum um þá kosti sem um er að velja í atvinnuþróun og atvinnusköpun.

Síðan er mjög eðlilegt að íbúarnir á þeim svæðum fái tækifæri til að láta vilja sinn koma í ljós, koma fram á lýðræðislegan hátt eða í sveitarstjórnunum eftir því sem það er ákveðið á hverjum stað. Það er mjög eðlilegt að þeir hafi virkileg og raunveruleg áhrif á framvindu mála.