133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[15:18]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður fór mikinn eins og hann hefur oft gert áður í umræðu um stóriðjumál. Ég undrast dálítið að hv. þingmaður skuli gera það í þessari umræðu vegna þess að hann og vinstri grænir hafa meira og minna lýst stuðningi við þær virkjanir sem verið er að tala um að fara í núna í tengslum við þær framkvæmdir sem eru í umræðunni.

Hv. þingmaður sagði í þinginu í fyrra — ég dró það eiginlega upp úr honum, ég vildi fá hann til að segja mér frá einhverjum framkvæmdum og einhverjum virkjanaframkvæmdum sem hann gæti stutt — með leyfi forseta:

„Neðri virkjanirnar í Þjórsá eru mjög hagkvæmar vegna þess að þær nýta alla miðlunina sem fyrir er ofar í Þjórsársvæðinu. Núpavirkjun og síðan Urriðafossvirkjun eru að vísu ekki án umhverfisfórna. Það þarf vissulega að fara vel yfir það, en að breyttu breytanda eru þær mjög eðlilegur virkjunarkostur áður en menn ráðast í ný og óröskuð svæði.“

Að auki segir hv. þingmaður að fullnýta þurfi Nesjavallasvæðið.

Í sambandi við Straumsvík er verið að tala um að fara í þessar virkjanir í neðri Þjórsá. Auk þess er verið að tala um að fara í framkvæmdir á Hengilssvæðinu og Nesjavallasvæðinu. Hv. þingmaður lýsti því yfir að hann teldi það eðlilegt og vinstri grænir í borgarstjórn vildu fara í þær framkvæmdir.

Hvað varðar Bakka við Húsavík þá hefur hv. þingmaður sagt við heimamenn að ef nýta eigi jarðvarmann sé mjög til skoðunar að styðja þær framkvæmdir.

Varðandi Helguvík er verið að tala um (Forseti hringir.) jarðgufu, Hengilssvæði og Nesjavelli sem hv. þingmaður er búinn að lýsa stuðningi við.