133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[15:23]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt að ég hefði dregið upp alveg skýra mynd af því hver staða þessa máls er og hvers konar sýndarmennska einmitt málatilbúnaður Framsóknarflokksins og ríkisstjórnarinnar er í þessum efnum, að reyna að tala um einhverja þjóðarsátt þegar ljóst er að öll stóriðjuáformin sem eru í pípunum geta gengið í gegn óháð því sem hér er verið að tala um. Það er bara staðreynd sem hæstv. ráðherrar og hæstv. ráðherra geta ekkert komist hjá.

Svo hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og hæstv. utanríkisráðherra hafi það alveg á hreinu er ég algerlega andvígur því að ráðist verði nú í virkjanirnar í neðri Þjórsá, (Gripið fram í.) algerlega andvígur því þó að … (Utanrrh.: Er það ný skoðun?) Nei, það er sama skoðun og ég hef haft á því máli lengi, þó að þær virkjanir séu að mínu mati skárri en þær verstu sem hægt er að ráðast í í landinu. Auðvitað er það skárra ef maður reynir að raða þessu upp með svipuðum hætti og rammaáætlun er ætlað að gera. Það er skárra en að eyðileggja Langasjó og fara inn á ósnortið svæði þar. (Gripið fram í.) Það er skárra en að fara í Þjórsárver, það er skárra en að fara í Jökulsá á Fjöllum, Kerlingarfjöll eða Torfajökulssvæðið. Það er vissulega hægt að hugsa sér verri virkjunarkosti og ég var að segja það þarna, að þeir væru betri en sumir aðrir. Það er staðreynd sem ekki verður horft fram hjá að búið er að miðla Þjórsá að verulegu leyti, það stendur reyndar til að gera betur ef Landsvirkjun fær að fara í Þjórsárver.

Þetta stendur ósköp einfaldlega svona og ég hefði með mikilli ánægju talað gegn þessu á fundinum í Árnesi ef ég hefði átt kost á því að vera þar, ég var því miður norður í landi (Utanrrh.: … skipt um skoðun?) en var þar a.m.k. í huganum. Nei, ég hef ekki skipt um skoðun. Ég skal bara fara rækilega yfir þetta með hæstv. ráðherra, þetta er svona. Er ekki hægt að leyfa orðunum að standa eins og þau eru sögð og í því samhengi sem þau eru sögð? Ég var einfaldlega að fjalla um það að virkjunarkostirnir eru misslæmir og þessir eru vissulega ekki þeir verstu, það hef ég aldrei sagt. (Gripið fram í.) Ég hygg að andstaðan á Suðurlandi sé ekki síður við það að fólk sér enga ástæðu til að færa þessar fórnir nú og við núverandi aðstæður í þágu þeirrar ráðstöfunar orkunnar sem ríkisstjórnin ætlast til. Það þýðir ekki endilega að allir séu jafnharðákveðnir (Forseti hringir.) í því að vera á móti þessum virkjunum við hvaða aðstæður sem er. Ég þekki marga slíka.