133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[15:54]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hæstv. ráðherra sagði að svona var að þessum málum staðið. Það kann vel að vera að það hefði átt að gera það öðruvísi. En það breyttist auðvitað ekki, það var engin aðkoma umhverfisráðuneytisins fyrr en eftir að tillögur nefndarinnar lágu fyrir.

Ég endurtek það sem ég sagði í ræðu minni að ég tel að það hefði verið meiri ástæða til þess að Alþingi hefði fjallað um þessa breytingu hér, og það mun auðvitað gera það, en að hæstv. iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra gerðu þær breytingar áður en frumvarpið kom í hendur Alþingis, einfaldlega vegna þess að nefndin var stofnuð sem pólitísk sáttanefnd um þau verkefni sem hún fékk í hendurnar, þau afmörkuðu verkefni og það var eðlilegt að þeim yrði skilað til Alþingis eins og þau komu frá nefndinni.

Reyndar hlustaði ég á hæstv. iðnaðarráðherra segja það einu sinni eftir að þessi niðurstaða kom fram að hann ætlaði ekki að breyta stafkrók í þessu máli. En hann hefur greinilega skipt um skoðun hvað það varðar.