133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[15:55]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Mér finnst rétt, herra forseti, að halda því til haga, sérstaklega gagnvart þeim málsvara náttúruverndar sem hv. þm. Jóhann Ársælsson er, að nefndinni var falið samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu að gera áætlun um auðlindanýtingu. Ekki áætlun um náttúruvernd.

Að því leyti fór nefndin að vissu marki út fyrir verksvið sitt án þess að hún væri samhliða víkkuð og fulltrúar umhverfisráðuneytisins eða stofnana umhverfisráðuneytisins væru teknir inn í þá vinnu, þannig að beggja hliða í því máli væri jafnvel gætt.

Ég tel að þetta hafi verið verulega til bóta fyrir frumvarpið. Mér finnst líka vert af þessu tilefni að láta þess getið að þær breytingar sem voru gerðar voru bornar undir alla nefndarmenn, fulltrúa allra flokka sem áttu sæti í nefndinni sem skilaði skýrslunni og upprunalega frumvarpinu.

Annað sem breyttist líka eftir að nefndin kom fram með þetta frumvarp var að á það var bent að í meðförum nefndarinnar hafði umsagnarréttur umhverfisráðuneytisins bæði varðandi veitingu rannsóknaleyfa og nýtingarleyfa dottið út. Þetta fannst okkur bagalegt og töldum að þetta hefði verið yfirsjón hjá nefndarmönnum og þetta er eitt af því sem nú kemur fram með nýju frumvarpi sem ekki fannst í frumvarpinu eins og það kom frá nefndinni sjálfri.

Ég er næsta viss um að hv. þm. Jóhann Ársælsson er sammála mér í því að það sé til bóta gagnvart frumvarpinu, að haldið sé í umsagnarrétt umhverfisráðuneytisins sem leitaði til undirstofnana sinna, Náttúrufræðistofnunar og Umhverfisstofnunar áður en umsagnir voru veittar, þannig að þeim sjónarmiðum náttúruverndar sé ávallt haldið til haga áður en leyfin eru veitt, hvort sem er rannsóknaleyfi eða nýtingarleyfi frá iðnaðarráðuneytinu.