133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[15:57]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er bara þannig að það er ekki hægt að taka afstöðu til nýtingar náttúruauðlinda á Íslandi öðruvísi en að hafa náttúruauðlindir í huga og náttúruverndina líka. Þetta eru óaðskiljanlegir hlutar við nýtingu náttúruauðlinda á Íslandi.

Þess vegna gat nefndin ekki fjallað um nýtingu náttúruauðlinda öðruvísi en með náttúruvernd í huga og sú ákvörðun nefndarinnar að líta á verkefni sitt með þeim augum að það yrði að vera hluti af heildarlausn til framtíðar hafði auðvitað í för með sér að menn urðu að horfa til náttúruverndar.

Með orðum mínum í dag er ég ekki að setja mig upp á móti hugmyndum um breytingar og bætur á því sem nefndin gerði. Allt má bæta. Ég geri alveg ráð fyrir því að Alþingi muni líka skoða þetta mál með það fyrir augum að bæta.

Í nefndinni taldi ég að það væri einmitt hlutverk Alþingis að fara yfir þetta mál og bæta því við sem þarf. Því það þarf vissulega að bæta við þær lausnir sem hér eru.

Það er alveg rétt að okkur sem vorum í nefndinni, a.m.k. mér, voru kynntar hugmyndir um að breyta frumvarpinu. Ég mælti ekkert með því að því yrði breytt. Ég hlustaði á hugmyndirnar sem komu fram um breytingar en nefndin kom aldrei saman til að fjalla um þær. Ég tel að þær ættu algerlega heima og að geta náð fram að ganga í meðförum Alþingis ekki síður en með því að breyta frumvarpinu eða flytja tvö frumvörp eins og niðurstaðan hefur orðið og skal láta útrætt um það.