133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[16:58]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Stjórnarfrumvarp það sem við erum að ræða hér er flutt af iðnaðarráðherra og snertir nýtingu á auðlindum í jörðu bæði hvað varðar sjálfa nýtinguna og eins mögulega náttúruvernd á þessum svæðum. Eins og ég sagði fyrr í umræðunum í dag er að þessu leytinu um að ræða frumvarp sem snertir umhverfismál að verulegu leyti. Þetta frumvarp er, eins og komið hefur fram, afrakstur af starfi nefndar sem iðnaðarráðherra skipaði í samræmi við ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 5/2006 og að öðru leyti er það árangur af samstarfi iðnaðarráðuneytisins annars vegar og umhverfisráðuneytisins hins vegar í tengslum við verndarþáttinn, þ.e. að því sem að umhverfinu snýr eins og hefur komið fram í umræðunni, með vísan til þeirra breytinga sem voru gerðar á frumvarpinu eins og nefndin sem vann megindrögin að frumvarpinu skilaði því af sér.

Hæstv. iðnaðarráðherra hefur í framsögu sinni gert ítarlega grein fyrir helstu breytingum og nýmælum sem í frumvarpinu felast og ég ætla ekki að endurtaka neitt af því. Ég vil hins vegar, frú forseti, fjalla sérstaklega um þá þætti frumvarpsins sem lúta að vernd umhverfisins en það eru bráðabirgðaákvæði II og III. Það er annars vegar bráðabirgðaákvæði II um starfshóp sem umhverfisráðherra skipar til að gera tillögu um á hvaða svæðum nýting á auðlindum í jörðu og vatnsafli verður ekki heimil og hins vegar á ákvæði bráðabirgða III sem tekur á því millibilsástandi sem mun ríkja þar til verndar- og nýtingaráætlun hefur verið afgreidd sem lög á Alþingi en eins og hefur komið fram er stefnt að því að leggja frumvarp fram á Alþingi í síðasta lagi í upphafi þings 2010.

Samkvæmt ákvæði II til bráðabirgða skal umhverfisráðherra skipa starfshóp með þátttöku allra þingflokka og viðkomandi ráðuneyta og stofnana auk umhverfisverndarsamtaka og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Starfshópurinn skal eigi síðar en 1. janúar 2010 skila tillögum sínum til forsætisráðherra. Þær eiga að vera um mótaða verndaráætlun til framtíðar sem tekur til svæða þar sem möguleikar eru til nýtingar auðlinda í jörðu og vatnsafls. Markmiðið með þessu er að gera tillögur um á hvaða svæðum Íslands nýting á auðlindum í jörðu og vatnsafli verður ekki heimil vegna ríkra hagsmuna náttúruverndar á því svæði sem um ræðir. Þetta mun tvímælalaust styrkja náttúruvernd og ég vænti þess að við munum sjá þess stað þegar í nýrri náttúruverndaráætlun sem umhverfisráðherra mun leggja fyrir Alþingi árið 2008.

Ég vil í þessu samhengi jafnframt benda á að með ákvörðun ríkisstjórnarinnar um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs var tekin ákvörðun um náttúruvernd á fjölmörgum svæðum sem búa yfir auðlindum í jörðu og einhverjum möguleikum til orkunýtingar en þar voru einfaldlega hagsmunir náttúruverndar og útivistar taldir vega mun þyngra en nýtingarkostir. Í þessu samhengi vil ég, frú forseti, nefna Jökulsá á Fjöllum en um hana var sérstaklega rætt í umræðum um frumvarp til laga um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs.

Í ákvæði til bráðabirgða III er sérstaklega tekið á stöðu svokallaðrar rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma en verkefnisstjórn fyrsta áfanga skilaði tillögum sínum í lok árs 2003 þar sem umhverfiskostir voru flokkaðir í fimm flokka, a, b, c, d og e með hliðsjón af umhverfisverðmætum.

Verkefnisstjórn annars áfanga rammaáætlunar hóf störf árið 2005 og henni er ætlað að vinna að tilteknum rannsóknum þar sem m.a. er lögð sérstök áhersla á jarðhitasvæðin. Verkefnisstjórn annars áfanga hefur sérstaklega beint sjónum sínum að umhverfisþáttum í störfum sínum og nú eru starfandi tveir stýrihópar á vegum verkefnisstjórnar þar sem annar metur verndargildi landslags og hinn verndargildi háhitasvæða.

Í 2. mgr. í ákvæði III til bráðabirgða kemur fram að þar til verndar- og nýtingaráætlun samkvæmt ákvæði til bráðabirgða IV hefur tekið gildi sé eingöngu heimilt að veita ný rannsóknar- og nýtingarleyfi fyrir kostum í umhverfisflokki a í fyrsta áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og einungis þeim kostum í umhverfisflokki b sem ekki eru gerðar sérstakar athugasemdir við vegna umhverfisverðmæta.

Með þessu er verið að lögfesta niðurstöður verkefnisstjórnar rammaáætlunar I fram til ársins 2011 sem ég tel mjög mikilvægt og mér finnst ástæða til að fagna sérstaklega. Með því hefur þá verið aflétt þeirri óvissu sem oft hefur verið haft orð á, þ.e. um hvernig nota skuli niðurstöður verkefnisstjórnar rammaáætlunar.

Í þessu samhengi vil ég nefna í samræmi við áðurnefnda flokkun verkefnisstjórnar rammaáætlunar I að í niðurstöðum sínum lagði verkefnisstjórn áherslu á að þeir kostir sem féllu undir flokkana a, b og c yrðu skoðaðir sérstaklega áður en ráðist yrði í aðra kosti, þ.e. samkvæmt d og e og er þetta listað upp í niðurstöðum verkefnisstjórnarinnar. Í ákvæði III til bráðabirgða er gengið lengra því að þar er einungis lagt til að nýttir verði þeir kostir sem falla undir kost a og við kosti sem falla undir b sem ekki eru gerðar sérstakar athugasemdir vegna umhverfisverðmæta þannig að í þessu bráðabirgðaákvæði eru tillögur verkefnisstjórnarinnar þrengdar.

Samkvæmt 3. mgr. í ákvæði III til bráðabirgða er ekki heimilt að veita ný leyfi til rannsóknar og nýtingar á kostum sem ekki falla undir það sem ég hef þegar greint frá nema fyrir liggi rannsóknir og mat sambærilegt því sem liggur til grundvallar niðurstöðum rammaáætlunar og — mér finnst rétt að árétta það — að fengnu samþykki Alþingis. Það verður ekki gert nema Alþingi veiti samþykki sitt fyrir því. Í þessu tilviki er mikilvægt að benda á það starf sem nú fer fram á vegum verkefnisstjórnar rammaáætlunar II en því verki verður haldið áfram og niðurstöður verkefnisins, sem eiga að liggja fyrir síðla árs 2009, verða lagðar til grundvallar frekari stefnumörkun innan málaflokksins bæði í tengslum við störf hóps iðnaðarráðherra og eins í tengslum við störf hóps umhverfisráðherra að verndaraáætluninni. Ég vil sérstaklega geta þess hér til þess að eyða allri óvissu um hlutverk rammaáætlunar II í tengslum við framhald verkefnisins. Þessi niðurstaða mun að mínu mati auka gildi þess verkefnis sem verkefnisstjórn rammaáætlunar II er að vinna að sem stendur og ýta undir það að verkefnisstjórninni verði gert kleift að ljúka starfi sínu á árinu 2009.

Mér finnst ástæða til, frú forseti, að fagna því sérstaklega hversu vel hefur tekist til við að finna þeim málum farveg sem falla undir lögin og ég tala hér um farveg og ekki síst verndarþáttinn. Ég tel að góð sátt ætti að geta náðst um þetta mál hér á Alþingi. Hv. þingmenn, m.a. Mörður Árnason og Jóhann Ársælsson, hafa gagnrýnt að haft hafi verið á orði að tillögur frumvarpsins fælu í sér þjóðarsátt, en frumvarpið hefur verið kynnt sem farvegur þjóðarsáttar. Hér er verið að tala um áætlanir sem gera á til næstu 25 ára og hlíti jafnvel endurskoðun á fjögurra ára fresti. Því álít ég að til framtíðar litið sé ekki ofsögum sagt að tala um farveg þjóðarsáttar.

Síðan vil ég, frú forseti, að öðru leyti vegna ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar og að hluta til ræðu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, varðandi einkunnagjöf fyrir tiltekin svæði, árétta að flokkunin og einkunnagjöfin og það að heimilt er samkvæmt bráðabirgðaákvæðunum að veita einungis leyfi til rannsókna og nýtinga á þessum tilteknu svæðum þýðir ekki endilega að það sé sjálfgefið að sjálfkrafa leyfisveitingar fylgi því ákvæði. Það er háð öllum frekari skoðunum og mati. Þá kemur m.a. til kasta umhverfisráðuneytisins vegna þeirrar lagaskyldu sem hvílir á iðnaðarráðuneytinu áður en slík leyfi eru gefin út að leita umsagnar þess ráðuneytis. Af því að Brennisteinsfjöll, sem falla í flokk b, voru sérstaklega nefnd áðan þá vil ég tiltaka það að umsókn Hitaveitu Suðurnesja um rannsóknarleyfi fyrir orkuöflun í Brennisteinsfjöllum var svarað sl. sumar. Í því tilviki lagðist umhverfisráðuneytið gegn því að veitt yrði leyfi til rannsókna og nýtingar jarðhita í Brennisteinsfjöllum. Og umsókn Hitaveitu Suðurnesja um rannsóknarleyfi fyrir orkuöflun í Krýsuvík og Trölladyngju var svarað í september á sl. ári og í því tilviki kvaðst umhverfisráðuneytið ekki geta tekið afstöðu til rannsókna á svæðinu fyrr en svæðið hefði verið afmarkað betur, minnkað og borunarstæðið tilgreint. Jafnframt var bent á að jarðeðlisfræðilegum rannsóknum sem ekki spilla landi verði lokið áður en ákvörðun er tekin um að áhrifameiri aðferðum verði beitt.

Hvað varðar Hellisheiðar- og Hengilssvæðið þá sótti Orkuveita Reykjavíkur um stækkun staðarmarka og rannsóknarleyfi ásamt forgangi að nýtingarleyfi á jarðhita á þeim svæðum og því var svarað sl. sumar. Í því tilviki óskaði umhverfisráðuneytið eftir að lagðar yrðu fram ítarlegri upplýsingar um málið áður en gefin yrði umsögn um það.

Sama gildir um Grændal. Þar lá fyrir umsókn Sunnlenskrar orku um rannsóknir á jarðhita og umhverfisráðuneytið óskaði í því tilviki eftir ítarlegri upplýsingum um rannsóknir og hvernig þær verði stundaðar án þess að svæðinu verði raskað.

Þarna hef ég nefnt, frú forseti, einhver af þeim svæðum sem hafa verið í umræðunni og falla ýmist undir a, b og einhver undir c eins og Grændalurinn. Ég legg áherslu á að þó að bráðabirgðaákvæðið sé orðað eins og hér segir þá þýðir það ekki sjálfkrafa leyfi til þessara aðila á þeim svæðum sem um ræðir.

Að öðru leyti vil ég segja, frú forseti, í þessu samhengi og um þennan farveg þjóðarsáttar sem ég tel þetta frumvarp vera og þær tillögur sem frumvarpið gerir með bráðabirgðaákvæðum um verndar- og nýtingaráætlun til lengri tíma litið, að ég tel að við eigum að fara okkur hægt. Og kannski sýna þær umsagnir sem ég nefndi áðan og málsmeðferðin það, að menn eru ekki að ana neitt í þessu samhengi. Við eigum að fara okkur hægt og við eigum ekki að rasa um ráð fram og þegar við erum að tala um landnýtingu og náttúrulegar auðlindir þá verðum við kannski fyrst og fremst og eigum að hafa í huga að náttúruverndin er ein tegund landnýtingar. Hún er ein tegund landnýtingar sem getur jafnframt skilað okkur arði. Það er ekki einungis orkunýtingin sem skilar okkur arði af náttúrulegum auðlindum. Hún getur jafnvel verið þjóðhagslega arðsamari en orkunýting, sérstaklega ef við lítum til ferðaþjónustu og ótvíræðrar sérstöðu náttúru Íslands á heimsvísu. Ég hef lagt mikla áherslu á það að við mat á verndun háhitasvæða verði unnið að öðrum áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og að þeirri vinnu verði lokið og sérstaklega horft til háhitasvæðanna út frá verndargildi þeirra.

Að öðru leyti vil ég taka undir það sem m.a. hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir lagði áherslu á í ræðu sinni, ég hef gert það á öðrum vettvangi og get vel endurtekið það hér, að við þurfum að stórefla allar rannsóknir á náttúru landsins og við þurfum að byggja allar ákvarðanir, hvort sem um er að ræða virkjun eða nýtingu jarðhitans eða virkjun vatnsaflsins, á bestu fáanlegum vísindarannsóknum og upplýsingum sem völ er á. Þannig hefur verið unnið að þessum málum og ég vænti ekki annars en að samkvæmt því verði unnið áfram og í hvívetna. Þegar umhverfisráðuneytið gefur umsagnir sínar til iðnaðarráðuneytisins hvað varðar þessi leyfi þá er ávallt leitað umsagnar Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands og jafnframt er gluggað í niðurstöður rammaáætlunar að því leyti sem þær ná til og það eru þau gögn sem umhverfisráðuneytið byggir umsagnir sínar á.