133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[17:13]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög gott að heyra með hvaða hætti hæstv. umhverfisráðherra talar. Það er gott hljóð í umhverfisráðherranum í dag og eins og hv. þm. Samfylkingarinnar Jóhann Ársælsson hefur sagt geta þau mál sem hafa verið flutt hér í dag verið mjög fínn hluti af heildarlausn, en heildarlausnina vantar.

Í bráðabirgðaákvæði III segir að þar til verndar- og nýtingaráætlun liggi fyrir sé heimilt, að aðgættum öðrum lagaskilyrðum — og það eru engin lög í gildi sem afstýra því ef ríkisstjórnin gefur heimild til virkjana — að veita nýtingarleyfi þeim rannsóknarleyfishöfum sem hafa fengið útgefið rannsóknarleyfi með fyrirheit um forgang. Sömuleiðis verði að heimilt að veita ný rannsóknar- og nýtingarleyfi fyrir kostum í flokki a og þeim kostum í flokki b sem ekki eru með sérstakar athugasemdir, og við fáum væntanlega að vita á eftir hverjir það eru.

Reynslan af viðhorfum ríkisstjórnarinnar til virkjanamála fram að þessu er ekki góð og þetta mál sem er komið fram nú og það hvernig umhverfisráðherra talar, eins og það verði kannski ekkert gert nema það sem allir eru sáttir við, við höfum eiginlega ekki tilefni til að trúa þessu, ekki ef núverandi ríkisstjórn verður áfram við völd — nema eitthvað meira komi út úr vinnu nefndar sem fjallar um þessi frumvörp heldur en það sem er handfast í dag.