133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[17:15]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir áréttaði þarna orðalag ákvæðisins. Því vil ég endurtaka það sem ég sagði áðan að eins og ákvæðið er orðað, að einungis sé heimilt að veita leyfi þeim svæðum sem eru innan flokks a og b, þýðir ekki endilega sjálfkrafa að það sé skylda að veita leyfi á þessum stöðum. Ég gerði grein fyrir því áðan í ræðu minni hverjar umsagnir umhverfisráðuneytisins hafa verið gagnvart þeim virkjunarkostum. Ég veit ekki til þess að leyfisveitingar af hálfu iðnaðarráðuneytisins hafi á nokkurn hátt farið í bága við það.

Að öðru leyti vil ég segja um það sem veitt hefur verið leyfi fyrir að frumvarpið gerir ráð fyrir tiltekinni málsmeðferð. Hv. þm. Mörður Árnason sagði áðan að við neitum því að útgefin rannsóknar- og nýtingarleyfi verði nýtt. Nú kemur þetta frumvarp til umsagnar og meðferðar hjá umhverfisnefnd og við skulum sjá hvernig nefndin tekur á þessu. Þetta er sú tillaga sem kemur frá ráðuneytinu um hvernig þessum málum skuli háttað. Þarna takast vissulega á annars vegar hagsmunir náttúruverndar og hins vegar hagsmunir þeirra sem hafa fengið leyfi útgefin.

Ég árétta að ég veit ekki til þess að iðnaðarráðuneytið hafi gefið leyfi í bága við þær umsagnir sem umhverfisráðuneytið hefur veitt.