133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[17:20]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að mér hafi ekki orðið fótaskortur á tungunni áðan þegar ég talaði um að nú kæmi þetta mál til meðferðar í umhverfisnefnd. Ég þóttist merkja það í niðurlagi framsögu hæstv. iðnaðarráðherra að hann talaði um að málið færi til meðferðar bæði í iðnaðarnefnd og í umhverfisnefnd. Þó að málið sé flutt af iðnaðarráðherra var gert ráð fyrir því vegna þess hve stór hluti þessa frumvarps eru umhverfismál að umhverfisnefnd þingsins fengi það jafnframt til meðferðar og inn á sitt borð.

Gert er ráð fyrir þrenns konar fyrirkomulagi í þessu frumvarpi. Í fyrsta hvernig tekið er á þeim svæðum sem raðast í a- og b-flokka. Í öðru lagi er talað um ný svæði og hvað þurfi að uppfylla til að Orkustofnun geti gefið þau leyfi út. Í þriðja lagi er talað um að mál þurfi að koma fyrir Alþingi.

Þetta er eins og niðurstaðan varð í þeirri nefnd sem allir flokkarnir áttu fulltrúa í. Svona liggur málið fyrir Alþingi og ég geri ráð fyrir að tekin verði afstaða til þessara leyfa í viðkomandi þingnefndum og allir kostir skoðaðir, m.a. hver staða þeirra sem fengið hafa útgefin rannsóknar- og nýtingarleyfi er gagnvart ríkisvaldinu.