133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[17:22]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fyrst gera þá athugasemd að ég held að það gangi ekki samkvæmt þinghefðum að vísa máli til tveggja nefnda með jafngildum hætti heldur gengur málið til einnar nefndar sem hefur vinnu þess á forræði sínu en sendir það áfram til annarrar nefndar sem málið varðar. Það er að sjálfsögðu hárrétt í þessu tilviki.

Hæstv. umhverfisráðherra var hér með frekar mjúkan tón í ræðu sinni og þar kom margt ágætt fram en ég hlýt þó að gera athugasemdir við nokkur atriði.

Í fyrsta lagi að hér sé verið að lögfesta niðurstöður rammaáætlunar. Mér finnst ekki rétt að orða það þannig í ljósi þess hversu miklir fyrirvarar eru á þeim niðurstöðum af hálfu höfundanna. Það hefur auðvitað lengi stungið í augu að rammaáætlun hefði ekki traustari stöðu lagalega eða stjórnskipulega en aðalatriðið er að henni sé lokið, að vinnunni sé lokið þannig að fyrirvararnir geti horfið út úr niðurstöðunum. Þess vegna má umhverfisráðherra ekki tala með þannig að hér sé verið að lögfesta endanlega niðurstöður einhverrar rammaáætlunar.

Í öðru lagi verð ég að segja að það veldur mér vonbrigðum að hæstv. umhverfisráðherra skuli taka sér í munn þjóðarsáttarklisjuna í tengslum við þetta mál. Mér finnst það ekki við hæfi. Þessi framvirka þjóðarsáttarhugsun, sem ég tel að umræðan í dag hafi svo fullkomlega afhjúpað, er ekkert innlegg, ekkert tilboð til sátta gagnvart þeirri stöðu sem þessi mál hafa í núinu og þá eiga menn að hætta tali af þessu tagi.

Í þriðja lagi vil ég spyrja umhverfisráðherra sem hefur með meginreglur umhverfisréttarins að gera og þar er samþættingarhugsunin mjög sterk: Hvernig í ósköpunum stendur á því að ríkisstjórnin skuli engu að síður skipta vinnunni sem fram undan er í tvennt, í nýtingarþátt undir iðnaðarráðuneyti og náttúruverndarþátt undir umhverfisráðuneyti, og kasta í öðru tilvikinu út öllum fagstofnunum og náttúruverndarsamtökum? Það er þá aldeilis samþætting (Forseti hringir.) sem fólgin er í þeim vinnubrögðum.