133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[17:25]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fyrst víkja að athugasemd hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar varðandi þjóðarsáttina. Ég tók það fram að ég teldi að hér væri farvegur þjóðarsáttar. Ég vil líka minna hv. þingmann á að fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sat í umræddri nefnd og stendur að þessum niðurstöðum. Þó að hv. fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafi lokið sinni vinnu og skrifað undir með ákveðinni bókun á einhverjum fyrirvörum er þetta farvegur þjóðarsáttar þótt einhverjum finnist ekki nógu langt gengið í því samhengi.

Hvað varðar meginreglurnar og gagnrýni hv. þingmanns í ræðu hans áðan á það hvernig frumvarpinu var breytt eftir að nefndin skilaði því af sér, ætla ég líka að halda því til haga, hv. þingmaður, að það var gert í fullu samráði við m.a. fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem sat í nefndinni. Ég held að betur fari á því að meginreglur umhverfisréttarins séu í sérstakri löggjöf, almennri löggjöf um meginreglur, en að þeirra sé einungis gætt og þær nefndar í einum, tveimur setningum í löggjöf sem lýtur að allt öðru. Ég minni hv. þingmann á að meginreglur umhverfisréttarins taka til annars og meira en eingöngu auðlindanýtingar. Þær taka til alls umhverfisréttarins og alls sem þar er undir.