133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[17:55]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Þetta er að mörgu leyti merkilegt mál og býður upp á mjög víðtæka umræðu þegar menn vilja það við hafa. Ég held að það hafi verið hæstv. umhverfisráðherra sem sagði áðan eitthvað á þá leið að þetta gæti verið farvegur til þjóðarsáttar.

Það kann svo að vera, hæstv. forseti, að það geti verið rétt. En ég held að sú þjóðarsátt felist ekki eingöngu í málinu eins og það liggur hér fyrir. Það er þá miklu frekar að hún felist í því sem boðað er, eftir 2010, ef niðurstaða næst þá því stefnumörkun málsins er að stórum hluta eftir.

Eins og málin eru í dag að því er varðar nýtingu vatnsafls og jarðvarma, orkunýtinguna, þá er ríkisstjórnin núna að vísa málinu frá sér og vísa því til sveitarfélaganna og segja sem svo: Það eru heimamenn sem eiga að ákveða hversu stór orkuver verða reist og einkanlega þó hvernig orkan verður nýtt í hvers konar iðnaði og einnig í hversu stórum einingum. Því er núna vísað heim í héruð hvort menn stækki álver eða byggi ný, hversu stór þau verði og það er í raun og veru orkufyrirtækin sem reisa kröfuna um það hversu stórar einingar þau vilja reisa, t.d. í áliðnaði og ríkisstjórnin virðist ekki ætla að hafa á því neina sérstaka skoðun eða stefnu.

Það leiðir svo að því þegar menn gera samning upp á að reisa eitt stykki álver upp á 200–300 þús. tonn, að ég tali nú ekki um 300–400 þús., þá kemur að því að það þarf að ná í orkuna og það er auðvitað það sem við upplifðum austur á fjörðum í sambandi við Kárahnjúkana.

Það vekur líka athygli á því, herra forseti, að eins og áhuginn virðist vera núna hjá stórfyrirtækjum mörgum hverjum, þá hlýtur það að vera m.a. vegna þess að við erum að selja orkuna á lágu verði. Ég fæ enga aðra skýringu á því að stórfyrirtæki úti í heimi vilja sækja hingað en að orkan fáist afhent hér á þeim kjörum sem fyrirtækin telji sér hagstæð og vafalaust horfa þeir líka á landið og þjóðina og ýmis fleiri atriði.

En fyrst og fremst held ég að það sé orkan og orkuverðið sem stórfyrirtækin sækjast eftir að ná langtímasamningum um og ég hygg að við séum að semja um orkuverð sem mætti örugglega vera hærra en það er í dag. Menn tala alltaf um þetta orkuverð eins og eitthvert leyndarmál þó að nánast allir viti að það liggur einhvers staðar á bilinu 29–30 mill. Það er varla neitt leyndarmál, það hefur verið upplýst hér á landi m.a. af mönnum sem tengjast fyrirtæki sem er að reisa starfsemi hér, þó að þeir hafi upplýst það í öðrum löndum. Orkuverð er jú tengt álverðinu á heimsmarkaði þannig að það sveiflast með því, ef álverðið lækkar þá lækkar orkuverðið o.s.frv.

Ég held reyndar að þessi feluleikur um orkuverið gagnvart íslensku þjóðinni sé, eins og sumir ráðherrar hafa sagt, barn síns tíma. Það er engin ástæða til að viðhalda honum, hæstv. iðnaðarráðherra. Ég held að við getum alveg talað um hlutina eins og þeir eru. Þetta eru samningar um það að við viljum jú nýta orkuna. Við erum vissulega að ræða um það hvernig við viljum nýta hana. Við tökumst á um það hvaða náttúruverndarsjónarmið og hvaða nýtingarsjónarmið eiga þar upp á borðið. Það er mjög eðlilegt, en náttúruverndarsjónarmiðin verða ríkjandi. Krafan um vernd náttúrunnar er harðari nú en var kannski fyrir áratugum. Það viðhorf speglast í þjóðfélaginu og reyndar með öðrum þjóðum og við verðum að taka vaxandi tillit til þess.

Eftir sem áður hljótum við sem þjóð að horfa til þess að nýta skynsamlega orkukosti og nýta orkuna, en um það þarf að nást sátt. Um það snýst það mál sem við ræðum hér efnislega, þ.e. hvort við stefnum með þessu frumvarpi í átt að þeirri sátt. Ég tel að hún náist ekki með frumvarpinu eins og það liggur fyrir hér. Ég hafna því heldur ekki, sem hæstv. umhverfisráðherra sagði áðan, að hér getur verið farvegur fyrir þjóðarsátt þó að það sé kannski ekki beint hægt að lesa það út úr frumvarpinu eins og það er núna. Ég hygg að flestallir sem starfa í stjórnmálum og hafa hag landsins í fyrirrúmi muni vilja ná sátt til framtíðar. Ég hygg að í öllum stjórnmálaflokkum sé vaxandi vilji til að ná slíkri sátt. Ég geri þess vegna ekki lítið úr því máli sem hér er lagt upp með þó að mér finnist ýmislegt skorta á í þeim efnum eins og málið er sett fram.

Það er jú þannig að eftir að tveir aðrir starfshópar hafa verið skipaðir, annars vegar á vegum iðnaðarráðuneytisins og hins vegar umhverfisráðuneytisins, má forsætisráðherra skipa nefnd til þess að vinna úr þeim tillögum sem lagt verður upp með. Samkvæmt stefnumótuninni á svo að birtast frumvarp sem lagt verður fyrir Alþingi í upphafi þings árið 2010.

Þannig segir í bráðabirgðaákvæði nr. IV, með leyfi forseta:

„Forsætisráðherra skal skipa þriggja manna starfshóp sem vinna skal frumvarp um verndar- og nýtingaráætlun sem byggist á tillögum starfshópa iðnaðar- og umhverfisráðuneyta. Í starfshópnum skulu eiga sæti einn fulltrúi frá umhverfisráðuneyti og einn frá iðnaðarráðuneyti. Fulltrúi forsætisráðuneytisins skal vera formaður starfshópsins.“

Það sem kemur út úr þessum starfshópum verður sem sagt lagt fyrir þessa þriggja manna nefnd og væntanlega eru menn að setja þetta í þann farveg til þess að ná frekari sátt en boðin er í frumvarpinu, hæstv. forseti.

Stóriðjustefna stjórnvalda er virk í verki þó að stjórnvöld segi sem svo að það sé á vegum sveitarfélaga að ákveða hvort byggja eigi nýja verksmiðju, nýtt álver, stækka það sem fyrir er eða hafna slíku. Ég get ekki annað en litið svo á að ríkisstjórnin, eins og hún hefur talað á undanförnum mánuðum og missirum, vilji reisa fleiri álver í landinu, vilji m.a. stækka álverið í Straumsvík, vilji m.a. reisa álver í Helguvík. Miðað við það sem ég sagði áðan um raforkuverðið finnst mér líka vera vilji til þess að við höldum áfram að selja raforkuna á lágu verði, verði sem er mjög eftirsóknarvert fyrir álfyrirtækin. Ekki er hægt að draga aðra ályktun af ásókn álfyrirtækja í að komast hingað til lands.

Það er mín skoðun, hæstv. forseti, að Alþingi eigi að ráða ferðinni. Alþingi á að ræða um og taka ákvörðun um hvaða stóriðjukosti við viljum leyfa, hversu stórar einingar við viljum leyfa og hvernig við viljum horfa til nýtingar á mengunarkvóta okkar í sambandi við orkufrekan iðnað. Við eigum að hafa þá yfirsýn hér á Alþingi að segja af eða á um framgang í orkumálum og varðandi stóriðjustefnuna. Það á að mínu viti að leita samþykkis Alþingis fyrir virkjunarkostum og ákvörðunum um frekari stóriðju, þ.e. hvar og hvenær verður byggt. Hér á Alþingi verður líka að ákveða stærðir þeirra eininga sem menn sækjast eftir að reisa, hvort sem það er í orkuverum, rennslisvirkjunum, virkjunum þar sem byggð eru uppistöðulón og stíflur til að safna upp vatni eða með nýtingu jarðvarmans. Menn gera sér vissulega vonir um að nýting jarðvarmans verði meiri í framtíðinni en við höfum kannski enn þá nýtingarmöguleika með svokölluðum djúpborunum — það hefur svo sem ekki verið leitt í ljós og þarf ítarlegri rannsóknir til.

Þar af leiðandi er mjög margt, hæstv. forseti, sem mælir með því að við förum okkur hægt nú um stundir, könnum m.a. þá kosti sem felast í djúpborunum og hvaða orku við gætum nýtt þar. Það kann að gjörbreyta myndinni hjá okkur á mati á orkunýtingu á landinu til framtíðar þegar niðurstöður úr þeim rannsóknum liggja fyrir. Þær eru svo sem ekki alveg í hendi á næstu árum en þær munu vissulega breyta ýmsu fyrir okkur í framtíðinni ef mál fara svo sem menn vonast eftir, að þar sé mikla orku að sækja og þar séu miklir möguleikar fyrir framtíðina.

Auk þess, hæstv. forseti, tel ég að orkuverð í heiminum muni einungis hækka. Það er því spurning hvort við eigum ekki að flýta okkur hægt. Við töpum sennilega ekki miklu á því að fara okkur hægt varðandi orkunýtinguna vegna þess að allar líkur eru á því að orkan verði verðmætari í framtíðinni en hún er núna.

Í bráðabirgðaákvæði I segir að markmið starfshóps, sem á að setja á laggirnar, sé að gera tillögur um á hvaða svæðum Íslands nýting á auðlindum í jörðu og vatnsafli verður heimil. Vissulega tek ég undir þá stefnumótun sem hér er lagt upp með en verð þó að ítreka að ég sé ekki að þetta sé alveg í hendi. En vissulega má horfa á þetta sem ákveðinn farveg til framtíðar.

Við hljótum líka, hæstv. forseti, þegar við ræðum almennt um orkunýtingu og nýtingu lands, að horfa til auðlindanýtingarinnar, auðlindagjalda eða auðlindasjóðs — hvernig svo sem menn vilja taka þau afgjöld. Í frumvarpinu segir eitthvað á þá leið að ríkið skuli í framtíðinni fá greiðslu fyrir nýtingu í þjóðlendum, ef ég man rétt, annars vegar og á ríkisjörðum hins vegar. Síðan eru það einkaaðilar sem hafa með notkun á jarðnæði og orku að gera sem er í þeirra einkaeigu. Ég tel að sú stefnumörkun sé að þessu leyti jákvæð. Við þurfum hins vegar að marka því alveg ákveðna stefnu til framtíðar að landið okkar og orkan er sameign þjóðarinnar, alla vega það sem ekki er í eignarböndum einkaaðila, og við eigum eðlilega að taka fyrir það afgjald. Orkufyrirtækin eiga ekki að fá þessa aðstöðu ókeypis. Það verður þá að endurspeglast í hækkuðu orkuverði til þeirra sem vilja kaupa, til þeirra sem vilja nýta land og orku. Í því sambandi verðum við að meta þau náttúrugæði sem e.t.v. fara til spillis og verðleggja þau á einhvern hátt. Það er mjög sjaldan hægt að nýta orku, hvort sem það er jarðvarmi eða vatnsföll, án þess að breyta með einhverjum hætti landinu, vatnsföllum eða því umhverfi sem orkunýtingin fer fram á. Þetta er alltaf mat á milli kosta. Eins og ég gat um hér í upphafi máls míns fá náttúruverndarsjónarmiðin sífellt meira vægi í umræðunni og það er eðlilegt og sjálfsagt að við tökum í vaxandi mæli tillit til þess.

Við getum ekki sett okkur á þann bás að setja okkur reglur um að við munum ekki nýta orkuna til framtíðar en við þurfum vissulega að forgangsraða mjög skynsamlega. Það hefur að hluta til verið gert með svokallaðri umhverfisflokkun, flokkun a, b, c, og á því getum við byggt á væntanlegri vegferð til framtíðar í þessum málum.

Hér segir líka, hæstv. forseti, í bráðabirgðaákvæði nr. III, með leyfi forseta:

„Þar til verndar- og nýtingaráætlun samkvæmt ákvæði til bráðabirgða IV hefur tekið gildi er heimilt, að aðgættum öðrum lagaskilyrðum, að veita nýtingarleyfi þeim rannsóknarleyfishöfum sem við gildistöku laga þessara hafa fengið útgefið rannsóknarleyfi með fyrirheit um forgang að nýtingarleyfi.“

Þá spyr maður: Það er búið að lofa ýmsu. Hversu bindandi eru þau fyrir íslensku þjóðina og stjórnvöld, þau loforð sem hafa verið gefin að því leyti til varðandi rannsóknir og nýtingu?

Í þessu bráðabirgðaákvæði segir einnig:

„Þar til verndar- og nýtingaráætlun samkvæmt ákvæði til bráðabirgða IV hefur tekið gildi er heimilt að veita ný rannsóknar- og nýtingarleyfi fyrir kostum í umhverfisflokki a í fyrsta áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og þeim kostum í umhverfisflokki b sem ekki eru gerðar sérstakar athugasemdir við vegna umhverfisverðmæta.“

Þetta er því allt talsvert opið, hæstv. forseti. Málið fer að sjálfsögðu til iðnaðarnefndar, vænti ég, og einnig til umhverfisnefndar og verður væntanlega farið vel yfir það. Ég held hins vegar að nefndin, sem m.a. var sett á laggirnar til að vinna að undirbúningi þessa frumvarps, hafi verið ágætur áfangi. Hér er byggt á tillögum hennar að talsverðu leyti þó að einnig séu boðaðar breytingar við þær niðurstöður enda er enginn texti svo fullkominn að ekki megi breyta honum og laga hann.

Ég vænti þess, hæstv. forseti, að það mál sem við ræðum hér geti orðið til sáttar við frekari vinnu hér í hv. Alþingi og í nefndum þingsins. Þó að við séum ekki endilega sammála um þau markmið sem hér eru sett á blað hljótum við öll að leita í átt til sáttar.