133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[18:15]
Hlusta

Katrín Fjeldsted (S):

Herra forseti. Þetta hafa verið áhugaverðar umræður um frumvarp til laga um breytingu á lögunum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og búið er að fara yfir mörg þau atriði sem skipta sköpum.

Mig langar samt að leggja orð í belg því það eru ýmsir þættir sem ég vil gjarnan undirstrika. Eitt af því er þessi þjóðarsátt sem hæstv. iðnaðarráðherra minntist á í upphafi.

Ég er mjög hlynnt því að ná þjóðarsátt um þetta stóra mál. Um öll virkjunarmál og náttúruvernd á Íslandi þarf að ríkja þjóðarsátt. Ég lít svo á að frumvarp ráðherrans sé með besta vilja hans meint þannig. En það eru vissir ágallar. Sumir hafa verið nefndir í dag en ég ætla að fara yfir það sem mér þykir vanta upp á til þess að um frumvarpið geti orðið sátt. Með því að breyta frumvarpinu smávegis væri það hægt.

Í frumvarpinu er vitnað í niðurstöður fyrsta áfanga rammaáætlunar. Sá áfangi var gefinn út í skýrslu sem kom út í nóvember 2003; rúm þrjú ár eru síðan skýrslan kom út. Hún byggði á vinnu sem var samkvæmt verklýsingu frá iðnaðarráðherra þess tíma, dags. 8. mars 1999. Rannsóknirnar og vinnan hljóta auðvitað að kallast barn síns tíma. Ég veit ekki annað en að það mikið hafi breyst í viðhorfum manna, sérstaklega í umhverfismálum, að það hljóti að hafa einhver áhrif á niðurstöður sem þar voru settar fram.

En annar áfangi rammaáætlunarinnar fór af stað í september 2004. Þarna glataðist að vísu talsverður tími, en frá september 2004 hefur verið unnið að öðrum áfanga og á að ljúka honum, eftir því sem sagt er, árið 2009. Ég veit að þær rannsóknir sem gerðar verða þurfa sinn tíma og það er áreiðanlega erfitt fyrir þá vísindamenn sem leggja vinnu til grundvallar öðrum áfanga að vera undir tímapressu með að skila þeim niðurstöðum. Það eru almenn sannindi um vísindavinnu. Viðfangsefni annars áfanga er ekki einungis að undirbúa nýjar virkjunarhugmyndir, eins og sagt var áðan, heldur er viðfangsefnið einnig að endurbæta þau gögn sem stuðst var við í fyrsta áfanga um marga virkjunarkosti og þær aðferðir sem beitt var við mat.

Ég verð því að segja að mér finnst hæpið að leggja fyrsta áfanga rammaáætlunar fram sem undirstöðu nýrra laga, a.m.k. finnst mér eðlilegt að endurskoðun eigi sér stað áður og þá aftur með það í huga að hægt sé að byggja undir þjóðarsátt. Því vönduð vinnubrögð eru það eina sem sómir okkur hér á hv. Alþingi og byggja þarf á bestu fáanlegri þekkingu. Sem sagt, viðfangsefnið í öðrum áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma er að endurbæta gögnin sem stuðst var við, en að auki fara í nýja virkjunarkosti.

Ég er þeirrar skoðunar að engin þjóðarsátt náist um þetta mál nema að núverandi virkjunaráformum sé slegið á frest. Af hverju segi ég það? Það er nú svo að almenningur er oft seinn til. Teknar hafa verið ákvarðanir sem uppgötvast kannski oft of seint. Almenningur áttar sig á alvöru máls eftir því sem löggjafinn segir eða stjórnvöld segja, of seint. Þetta þekkjum við í öllum stjórnvaldsákvörðunum, almenningur kannski áttar sig síðar og stendur frammi fyrir gerðum hlut.

Almannarómur á Íslandi er breyttur. Hann hefur breyst verulega á síðustu árum, þó við tökum ekki nema síðustu fimm ár. Það er komin ný tóntegund. Það er ekki að ástæðulausu að 15.000 manns gengu með Ómari Ragnarssyni niður Laugaveg. Það er ekki að ástæðulausu að Andri Snær Magnason hefur selt 20.000 eintök af bókinni sinni. Það er af því að fólk er orðið meðvitað um umhverfismál, vill taka þátt í þeim og vill skipta sér af því sem gert er á landinu.

Í þeirri umræðu eru virkjanir í fyrirrúmi. Fólk spyr, til hvers er verið að virkja? Fyrir hvað eigum við að fórna landinu? Erum við í erfiðleikum í þjóðarbúskap okkar? Er hjá okkur hallæri? Þurfum við að skera niður mjólkurkúna? Þurfum við að fórna einhverju sem er óafturkræft af því að ástandið hjá okkur er svo erfitt? Auðvitað er það ekki þannig. Því er alveg þveröfugt farið. Við höfum verið með of mikla þenslu á undanförnum árum og við höfum sjálf skapað megnið af þeirri þenslu með virkjunum og þeim framkvæmdum sem ráðist hefur verið í.

Þjórsárver eru gott dæmi og hefur verið minnst aðeins á þau hérna, þ.e. Norðlingaölduveitu, og að fyrir liggi þingmál sem ekki hafi fengist rætt í umhverfisnefnd sem lýtur að stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Ég vil taka fram að sú tillaga er byggð á tillögu sama efnis sem ég flutti á síðasta kjörtímabili.

Þjórsárver hafa verið í brennidepli undanfarna daga eftir fund sem haldinn var austur í Gnúpverjahreppi í fyrradag. Ljóst er að mikil andstaða er risin upp gegn þeim áformum. Það eru efasemdir um að fórna náttúrugæðum undir virkjanir. En almenningur spyr líka, af hverju ál og af hverju erum við að setja öll eggin í sömu körfuna? Því það var jú það sem lagt var upp með þegar farið var að byggja álver á Íslandi. Þá var sagt: Við erum með öll eggin í sömu körfunni, sú karfa var þá sjávarútvegur. Við þurfum að fjölga eggjunum í körfunni og fá okkur fleiri körfur. Þannig komu áleggin inn.

Það var athyglisverð grein í Morgunblaðinu 11. febrúar eftir Guðfinn Jakobsson, þar sem hann ræðir einmitt um þetta, ál eða ekki ál. Þegar maður les greinina áttar maður sig auðvitað á því hversu mikið mann vantar af upplýsingum. Maður reynir að kynna sér umræðuna úti í heimi, les um ál og iðnað á netinu og í Newsweek og í hinum og þessum miðlum. En fyrrnefndur maður hefur farið í gegnum skýrslur báxít-umhverfissamtakanna á Jamaíku. Allt í einu sér maður þetta álmál í alveg nýju ljósi. Ég hef alltaf vitað að áliðnaðurinn á Íslandi byggir á hráefni sem við eigum ekki til og þurfum að flytja inn og afraksturinn fer út í heim og það erum ekki við sem njótum gróðans af honum fyrir sölu.

En báxítið sem ál er unnið úr, hvaðan kemur það? Það er jarðvegur, það er leir sem er nefndur báxít. Hann kemur aðallega frá Ástralíu en einnig frá eyjunni Jamaíku. Jamaíka er eyja í Karíbahafinu. Hún er ekki nema einn tíundi af flatarmáli Íslands, skógi vaxin eyja. Þar búa tvær milljónir manna. Fyrirtækin sem stunda námagröft á Jamaíku, segir þessi greinarhöfundur, heita Alcoa, Kaiser og Alcan. Til þess að komast að hráefninu, segir hann, er skógurinn skafinn burt en báxítgröftur er ein helsta orsök skógareyðingar á Jamaíka.

Guðfinnur Jakobsson segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Námurnar valda ryk- og hávaðamengun, vegir að námunum opna ósnortin svæði fyrir skógarhöggi og rányrkju, fíngert ryk fýkur frá verksmiðjunum yfir byggðir og það skolast út í sjó við útskipun og spillir m.a. kóralrifjum.

Súrálsvinnsla er einhver sóðalegasti iðnaður sem fyrirfinnst. Báxítinu er mokað inn í súrálsverksmiðjur þar sem það er skolað upp úr vítissóda, en eftir situr fíngert hvítt duft, súrál. Fyrir hvert tonn af súráli sem þannig fellur til myndast tvö tonn af rauðri drullu. Auk skógareyðingar og gríðarlegrar orkuþarfar er rauða leðjan langstærsta vandamálið sem fylgir álvinnslunni. Leðjan er menguð af vítissóda, hábasísk og baneitruð. Leðjunni er safnað í lón og tjarnir en efnin seytla út í umhverfið og menga grunnvatn, stöðuvötn og drykkjarvatn. Fyrir milljón tonn af framleiddu áli verða til um það bil fjórar milljónir tonna af rauðri leðju.“

Ég ætla leyfa mér aðeins að vitna meira í grein þessa höfundar, með leyfi forseta:

„Í hvað fer svo öll álframleiðslan? Okkur er sagt að flugvélaiðnaðurinn noti mikið ál, en einungis 5% álframleiðslu heimsins fer í flugvélasmíði, en koltrefjaefni eru í sívaxandi mæli að taka þar við, t.d. er ál einungis 20% af heildarþyngd nýjustu farþegaþotu Boeing-verksmiðjanna. Stór hluti álframleiðslunnar fer í umbúðir. Tölur sem ég hef fundið eru þó nokkuð á reiki, en þær hljóða upp á að allt frá 20% upp í 75% heildarálframleiðslunnar séu notuð í umbúðir. Dósir undir gosdrykki og bjór, álbakkar undir matvæli, álpappír utan um sælgæti og ýmis matvæli o.s.frv. Ál er auðvelt að endurvinna, litla orku þarf til að bræða það upp aftur, en einungis sáralítill hluti umbúða er endurunninn, megnið fer bara á haugana.“

Ég man eftir því að hafa lesið frekar nýlega sagt frá því að ef Bandaríkjamenn endurynnu allt það ál sem notað er í umbúðir, sérstaklega dósir utan af drykkjum, væri það nóg til endurnýja flugvélaflota þeirra. Það kostar sem sagt sáralítið að endurvinna ál en menn henda því í ruslið.

Ég segi þetta til að skýra að almannarómur, ekki bara á Íslandi, heldur annars staðar í heiminum talar í annarri tóntegund en áður af því að fólk er að kynnast og fá upplýsingar. Upplýsingar af þessu tagi er hægt að nálgast auðveldar í dag en áður og þær hafa breytt hugsanagangi margra.

Ef við lítum á það sem segir í niðurstöðum fyrsta áfanga rammaáætlunar, þá segir um orkufyrirtækin hér á landi, og ég vitna í þetta, með leyfi forseta.

„Oft hafa þessir aðilar lagt í ærinn kostnað við að útfæra og meta virkjunarhugmyndir áður en í ljós kom að veruleg andstaða var gegn framkvæmdum vegna óæskilegra umhverfisáhrifa þeirra.“

Svolítið síðar segir:

„Orkufyrirtækin og Orkustofnun geta því við ákvörðun um rannsóknir á einstökum virkjunarkostum nýtt sér niðurstöður rammaáætlunar með því að velja vænlega kosti sem litlar líkur eru á að valdi umtalsverðum umhverfisáhrifum né deilum.“

Það er sem sagt keppikefli að valda ekki deilum og það er keppikefli að ekki sé andstaða við þær framkvæmdir sem við förum í.

Þess vegna segi ég: Þar sem ljóst er að andstaða er fyrir hendi í okkar góða þjóðfélagi og hún fer vaxandi þá vil ég beina því til hæstv. iðnaðarráðherra að taka mark á þeim röddum og að undantekningarákvæðin sem eru í þriðja bráðabirgðaákvæðinu með frumvarpinu verði ekki látin standa svona. Þar er nefnilega verið að heimila þeim sem hafa verið með rannsóknarleyfi að fá nýtingarleyfi áður en vinnunni er lokið, þeirri vísindavinnu sem við viljum byggja á. Þar er líka verið að heimila að veita ný rannsóknar- og nýtingarleyfi.

Ég fullyrði að um þetta muni aldrei nást nein sátt. Ég held að þetta kosti áframhaldandi óvinafagnað og af því að ég er friðarins manneskja vil ég beina því til ráðherrans og til nefndanna, sem taka þetta til umfjöllunar, að slá öllum frekari framkvæmdum á frest. Ég ætla ekki að segja að setja þær á ís, af því að við hækkandi hitastig í heiminum bráðnar ís. Þess vegna dugar heldur ekki að setja Þjórsárver á ís. Það þarf bara að álykta um þau og stækka það friðland.

En vinnan eins og hún er fyrirhuguð í þessu frumvarpi finnst mér að mörgu leyti góð, annars vegar starfshópur iðnaðarráðherra, ágætlega samsettur og sambærilegur hópur umhverfisráðherra. En ég hef áhyggjur af þriðja hópnum því hann á að vinna frumvarp um verndar- og nýtingaráætlun sem byggist á tillögum starfshópanna. En hvað ef þeir eru algerlega ósammála, sem gæti orðið? Fræðilega mögulegt og kannski frekar líklegt. Hvernig á sú nefnd eða sá hópur að fara að því að semja frumvarp, ef svo fer?

Ég held að með því að breyta þessu, þ.e. að fella út þessi undanþáguákvæði og ákveða að ekki verði farið í frekari framkvæmdir, geti náðst þjóðarsátt um þetta mál.

Nýja verkefnisstjórnin á ekki að skila fyrr en árið 2009. Starfshópar ráðuneytanna og starfshópurinn sem á að reyna að samræma tillögur þeirra, sú vinna á að leggjast fyrir í upphafi þings 2010–2011. Tíminn líður hratt, það er komið fram á árið 2007. Ég held að við getum, þessi efnaða þjóð, leyft okkur að bíða, af því að vönduð vinnubrögð eru það eina sem sæmir okkur. Við verðum að fara að venja okkur á að náttúran njóti vafans. Hún hefur ekki gert það nægilega hingað til og ég held að almenningur á Íslandi sætti sig ekki lengur við það.