133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[18:58]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er algjörlega á móti þeim sjónarmiðum sem hæstv. ráðherra hefur sett hér fram um að þetta frumvarp feli í sér þjóðarsátt. Ég tel þvert á móti að hæstv. ráðherra sé að bregðast friðarskyldu sinni sem stjórnvald. Hann er hér á síðustu vikum ríkisstjórnar, sem er kolfallin í skoðanakönnunum, að leggja fram mál sem bindur hendur næstu ríkisstjórnar til að minnsta kosti fjögurra ára.

Það verður aldrei nein þjóðarsátt um þetta mál nema því fylgi að hann fresti öllum þeim stóriðjuframkvæmdum sem nú eru á döfinni. Þjóðin hefur verið undirlögð af deilum um einmitt þau stóriðjuáform sem nú eru helst uppi. Þess vegna er það einungis það að gera stóriðjuhlé sem getur leitt til sáttar um þessi mál.

Mér finnst undarlegt af hæstv. ráðherra að koma hér og tala eins og í þessu felist eitthvert tilboð um sátt af hans hálfu. Það getur aldrei verið viðunandi tilboð um sátt, sem ég mundi fegins hendi taka, nema því fylgi að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir friði í samfélaginu um þessi mál.

Þetta er það umdeildasta sem nú er uppi og það er ekki hægt að bjóða upp á regluverk sem bindur hendur næstu ríkisstjórnar með þeim hætti að þingið fái ekki ráðrúm til þess að taka í sínar hendur þessi mál öll. Það hefði orðið að fylgja þessu til þess að nokkur sátt yrði um það.

Hæstv. ráðherra bendir á þá augljósu staðreynd að fjögur ár er undraskammur tími. En ég vil upplýsa hann um það að þrír mánuðir er miklu skemmri tími. Hvað er að því að láta nú nótt sem nemur og fresta þeim stóriðjuframkvæmdum sem eru á döfinni til að ná sátt um þetta og láta nýja ríkisstjórn ráðast í þetta? Hæstv. ráðherra talar um start/stopp- eða stopp/start-stefnu. Hvernig væri að hann mundi íhuga að taka upp stopp/stopp-stefnu?